Forsætisráðherra Serbíu fagnar óformlegum viðræðum við ESB

Vojislav Kostunica, forsætisráðherra Serbíu, fagnaði í dag þeirri ákvörðun Evrópusambandsins að hefja óformlegar aðildarviðræður við landið. „Evrópa hefur sent okkur þær góðu fréttir að við verðum tekin til jákvæðrar athugunar," sagði hann.

Þá sagði hann þetta vera fyrsta mikilvæga áfangann í sameiginlegri vinnu þjóðarinnar í átt að Evrópusambandsaðild og að þrátt fyrir að hún eigi mikla vinnu fyrir höndum þá viti hún nú hvert takmark hennar sé og hvað hún þurfi að gera til að ná því.

Forsætisráðherrar Evrópusambandsins fögnuðu fyrr í dag framsali Serba á Nebojsa Pavkovic, fyrrum yfirmanni Júgóslavíuhers, til stríðsglæpadómstólsins í Haag, og samþykktu í kjölfar þess að hefja óformlegar viðræður við landið um skilyrði fyrir hugsanlegri aðild þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert