Yfirvöld í Sádi-Arabíu hrista af sér gagnrýni Rice

Condoleezza Rice þiggur kaffibolla af prins Saud Al Faisal við …
Condoleezza Rice þiggur kaffibolla af prins Saud Al Faisal við upphaf fundar þeirra í dag. AP

Yfirvöld í Sádi-Arabíu gerðu í dag lítið úr ummælum Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, en hún hvatti í gær til lýðræðisþróunar í landinu auk þess sem hún fór fram á lausn þriggja pólitískra fanga úr fangelsum í landinu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Saud al-Faisal, utanríkisráðherra landsins, sagði íbúa landsins best til þess fallna að dæma um það hvers lags stjórnmálaþróun henti þeim best. Þá sagði hann mál fanganna þriggja vera í höndum dómstóla landsins en ekki yfirvalda.

Rice lét ummælin falla í Egyptalandi í gær en hún er nú komin til Riyadh í Sádi-Arabíu þar sem hún mun eiga fundi með Abdullah krónprinsi og Saud í dag. „Það er ekki lengur hægt að réttlæta það að fólk um öll Mið-Austurlönd sé svipt frelsinu vegna óttans við frjálst val," sagði Rice í gær. „Það er kominn tími til að snúa baki við þeim afsökunum sem settar eru fram til að forðast það erfiði sem fylgir lýðræðinu."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert