Fangar í Írak kafna úr hita

Níu byggingaverkamenn frá Írak létust af völdum hita í nótt. Mennirnir voru handteknir í gær vegna gruns um að vera uppreisnarmenn og var þeim haldið föngum í gámi í 14 klukkustundir. Þrír mannanna komust lífs af við illan leik.

Byggingaverkamennirnir lentu í átökum á milli uppreisnarmanna og bandaríska hersins í bænum Ameriya í gær. Félagi þeirra særðist í átökunum og fluttu þeir hann á sjúkrahús í nágrenninu. Íbúi í bænum taldi þá vera úr röðum uppreisnarmanna og hafði samband við lögreglu sem handtók mennina um miðjan dag í gær og lokaði þá inni í gámi. Um kvöldið höfðu átta þegar látist af völdum hitans í landinu, sem hefur, þegar sól er hæst á lofti, farið í 50 gráður. Þeir sem eftir lifðu voru fluttir á sjúkrahús í Bagdad og þar lést einn þeirra til viðbótar.

Læknir sagði í samtali við fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC, að einn fanganna hafi verið pyntaður mörgum sinnum með rafmagni.

Byggingaverkamennirnir fengu ekki að ræða við blaðamenn þegar þeir voru fluttir af sjúkrahúsinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert