Þýskaland: 7 ára fangelsi fyrir aðild að hryðjuverkasamtökum

Mounir el Motassadeq.
Mounir el Motassadeq. AP

Eini maðurinn sem dæmdur hefur verið vegna hryðjuverkaárásanna gegn Bandaríkjunum var í dag dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir þýskum dómstól þegar mál hans var tekið þar fyrir að nýju. Maðurinn, Mounir Motassadeq sem er marokkóskur, var dæmdur fyrir að hafa verið félagi í hryðjuverkasamtökum en dómurinn var kveðinn upp í Hamborg.

Hins vegar var kveðið upp fyrir dómnum að engar sannanir lægju fyrir um að Motassadeq, sem er 31 árs, tengdist árásunum í Bandaríkjunum með beinum hætti. Í febrúar árið 2003 var Motassadeq dæmdur til 15 ára fangelsisvistar fyrir aðild að meira en 3.000 morðum og fyrir að vera félagi í hryðjuverkasamtökum.

Ákveðið var að mál hans yrði tekið upp að nýju eftir að áfrýjunardómstóll felldi dóminn úr gildi á þeim forsendum að bandarísk stjórnvöld hefðu neitað að leyfa dómstólnum að yfirheyra félaga í al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum, sem eru í haldi Bandaríkjamanna.

Handtekinn í nóvember 2001

Motassadeq var handtekinn í Hamborg í nóvember árið 2001, tveimur mánuðum eftir að íslamskir öfgamenn gerðu hryðjuverkaárásir á New York og Washington. Hann var þá við nám í Þýskalandi.

Hefði Motassadeq verið sýknaður með öllu hefði það verið nokkuð áfall fyrir þýska alríkissaksóknara, að því er fram kemur í frétt AFP, en rannsókn málsins hefur staðið í meira en þrjú ár.

Abdelghani Mzoudi, annar nemandi frá Marokkó, sem ákærður var fyrir sömu sakir og Motassadeq, var sýknaður fyrir sama dómstóli í febrúar í fyrra og var sú ákvörðun staðfest af öðrum dómstóli. Hann átti yfir höfði sér að verða vísað úr landi og hélt til Marokkó í júní í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert