Listviðburðum aflýst í mótmælaskyni á Ítalíu

Berlusconi þreytulegur á ítalska þinginu en ríkisstjórn hans hyggst draga …
Berlusconi þreytulegur á ítalska þinginu en ríkisstjórn hans hyggst draga úr fjárframlögum til menningargeirans þar í landi. AP

Fjöldi kvikmyndahúsa, tónleikahúsa, leikhúsa og annarra staða sem bjóða upp á listviðburði verður lokaður á Ítalíu í dag í mótmælaskyni við fyrirhugaðan niðurskurð ríkisstjórnarinnar til listasjóðs þar í landi. Hyggst ríkisstjórnin veita 300 milljónum evra til sjóðsins í stað 464 milljóna.

Félag kvikmyndaframleiðenda á Ítalíu, Antica, segir fyrirhugaðan niðurskurð stjórnvalda stefna rekstri um 5.000 fyrirtækja í hættu og að um 60.000 manns eigi hættu á því að missa vinnuna sökum þessa. Meðal þeirra sem aflýst hafa sýningum sínum er Scala óperuhúsið.

Í yfirlýsingu sem Anica birti á vefsíðu sinni segir að stjórnvöld séu með áætlunum sínum að svipta fólk og fyrirtæki þeim grundvallarréttindum að framleiða og njóta listar. Stéttarfélög og samtök fólks sem starfar innan menningargeirans boðuðu til mótmæla í Róm í dag og skv. heimildum ítölsku fréttastofunnar ANSA munu frægir listamenn láta sjá sig á þeim stöðum sem mótmælin fara fram.

Meðal aflýstra viðburða er frumsýning á nýjustu kvikmynd leikarans Roberto Benigni, Tígrisdýrið og snjórinn, og vandar Benigni stjórnvöldum ekki kveðjurnar og kennir stjórnvöldum um. Verkfallið sé fullkomlega réttlætanlegt.

Þrjú stærstu verkalýðsfélög Ítalíu boðuðu fyrr í vikunni til fjögurra klukkustunda allsherjarverkfalls þann 25. nóvember næstkomandi til að mótmæla fjárlögum ríkisstjórnar Berlusconis fyrir næsta ár sem gera ráð fyrir 20 milljarða evra niðurskurði á útgjöldum ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert