NATO-ríki fagna yfirlýsingum Rice um túlkun mannréttindasáttmála

Condoleezza Rice kemur til höfuðstöðva NATO í Brussel í morgun.
Condoleezza Rice kemur til höfuðstöðva NATO í Brussel í morgun. AP

Utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna fagna yfirlýsingu Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um að bandarísk stjórnvöld túlki alþjóðleg mannréttindalög ekki með öðrum hætti en önnur aðildarríki NATO. Rice situr ráðherrafund NATO í Brussel í dag og er búist við að umræðurnar þar snúist m.a. um fréttir af fangaflutningum bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, og leynileg fangelsi CIA í Evrópuríkjum.

„Hún hefur búið sig undir góða umræðu," sagði Sean McCormack, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins. Ben Boot, utanríkisráðherra Hollands, hefur sagt að hann muni taka ásakanirnar á hendur CIA upp á fundinum.

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði í morgun, að yfirlýsing Rice um að Bandaríkin túlkuðu alþjóðalög og alþjóðasamninga um mannréttindi með sama hætti og önnur NATO-ríki, væri mikilvæg „því við getum ekki átt í deilum um túlkun á alþjóðalögum."

Rice hefur ekki svarað með beinum hætti hvort Bandaríkjastjórn hafi meinta hryðjuverkamenn í haldi í fangelsum sem brjóta í bága við evrópska mannréttindasáttmála. Hún fullvissaði hins vegar Angela Merkel, kanslara Þýskalands, á þriðjudag um að Bandaríkin myndu vinna að því að leiðrétta mistök, sem gerð hefðu verið í stríðinu gegn hryðjuverkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert