Morales lækkar laun sín um 50%

Evo Morales.
Evo Morales. Reuters
Eftir Ásgeir Sverrisson asv@mbl.is
EVO Morales, sem tekur við embætti forseta Bólivíu 22. janúar, hefur ákveðið að lækka laun sín um helming. Ráðherrar í stjórn hans sem og þingmenn munu þurfa að sætta sig við sömu skerðingu kjara. Morales skýrði frá þessari ákvörðun sinni seint á þriðjudag að staðartíma. Sagði hann að fjármunir, sem spöruðust með þessu móti, yrðu nýttir til að fjölga starfsfólki á sviði mennta- og heilbrigðismála.„Þetta er lýðræðisleg bylting og við munum svara kalli alþýðunnar í Bólivíu,“ sagði Morales og bætti við að stjórnmálamönnum bæri að deila kjörum með alþýðu manna. Þá skýrði forsetinn frá því að nýjum skatti á auðmenn yrði komið á svo fljótt sem verða mætti.

Morales var 18. þessa mánaðar kjörinn forseti Bólivíu fyrstur indíána í sögu landsins. Hann er 46 ára gamall og hóf feril sinn sem leiðtogi kóka-ræktenda og indíána. Morales fer fyrir flokki er nefnist „Hreyfing í átt til sósíalismans" (MAS) í orðréttri þýðingu.

Um leið og hann skýrði frá launalækkun sinni boðaði hann að allir ráðherrar stjórnar sinnar myndu einnig sæta 50% lækkun launa. Hið sama myndi eiga við um þá 157 fulltrúa, sem MAS-flokkurinn fékk kjörna til setu á þingi landsins. Jafnframt greindi forsetinn frá því að varaþingmenn myndu framvegis ekki fá greitt fyrir störf sín er þeir leystu af á löggjafarsamkundunni.

Á morgun, föstudag, heldur Evo Morales í fyrstu utanlandsför sína frá því hann var kjörinn forseti. Leiðin liggur til Kúbu en Morales er aðdáandi Fídels Kastró Kúbuleiðtoga og kveður hann vopnabróður í baráttunni gegn „heimsvaldastefnu" og „ný-frjálshyggju". Í byrjun nýja ársins heldur Morales síðan til Spánar og Frakklands. Þaðan liggur leiðin til Suður-Afríku á fund Nelsons Mandela, fyrrum forseta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert