76 ára blindur dauðamaður reynir að fá dauðadómnum hnekkt

Dauðaklefinn í San Quentin-fangelsinu.
Dauðaklefinn í San Quentin-fangelsinu. AP

Sjötíu og sex ára gamall Bandaríkjamaður, Clarence Ray Allen, sem taka á af lífi í Kaliforníu í fyrramálið að íslenskum tíma hefur beðið hæstarétt að hnekkja dauðadómnum á þeirri forsendu að það teljist grimmileg og óvenjuleg refsing að taka af lífi aldraðan og lasburða mann. Allen telst blindur, er næstum því heyrnarlaus og bundinn við hjólastól.

Fari aftakan fram verður Allen næst elsti maður sem tekinn hefur verið af lífi í Bandaríkjunum síðan hæstiréttur þar heimilaði dauðarefsingar á ný 1976. Verjendur Allens halda því fram að aftaka á veikluðum öldungi væri brot á stjórnarskrárákvæði sem bannar grimmilegar og óvenjulegar refsingar, og að 23 ára vist Allens á dauðadeild sé það líka.

Hæstiréttur hefur jafnan hafnað rökum sem þessum og aldrei sett aldurstakmörk við aftökum eða talið líkamleg veikindi gilda forsendu náðunar. Aftur á móti hafa sumir hæstaréttardómarar látið í ljósi áhuga á að skorið verði úr um hvort löng vist á dauðadeild sé stjórnarskrárbrot.

Allen var dæmdur til dauða 1982 fyrir að hafa fyrirskipað þrjú morð. Hann sat þá í fangelsi fyrir að hafa látið myrða kærustu sonar síns, sem hann óttaðist að myndi veita lögreglu upplýsingar um rán. Í fangelsinu reyndi hann að láta myrða vitni í málinu, að því er saksóknarar segja. Dauðadóminn fékk hann fyrir að ráða leigumorðingja sem drap vitni og tvo vegfarendur.

Hann fékk hjartastopp í september sl., en læknar komu honum til bjargar og hann var fluttur aftur á dauðadeildina í San Quentin-ríkisfangelsinu í Kaliforníu. Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri og hæstiréttur Kaliforníu hafa hafnað náðunarbeiðni Allens, og það hefur alríkisáfrýjunardómstóll einnig gert.

Clarence Ray Allen.
Clarence Ray Allen. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert