Ávísun Palestínumanna vegna bensínkaupa reyndist innistæðulaus

Fyrirtæki í Ísrael, sem útvegar heimastjórn Palestínumanna bensín, sagði að ávísun frá heimastjórninni upp á rúmar 22 milljónir dala hefði reynst innistæðulaus í síðustu viku og því hefði eldsneytisflutningum til Palestínumanna verið hætt. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti í morgun að heimastjórnin fengu greiddar 120 milljónir evra, jafnvirði 142 milljónir dala, sem búið var að úthluta þeim.

Ísraelskur embættismaður sagði við fréttastofuna AFP að stjórnvöld gætu ekki gripið inn í mál sem tengdist einkasamningum.

Frá árinu 1994 þegar heimastjórn Palestínumanna var komið á fót, hefur fyrirtækið Dor-Allon útvegað Palestínumönnum um 600 þúsund lestir af eldsneyti og 120 þúsund tonnum af gasi. Heimastjórnin virkar eins og heildsali á eldsneyti fyrir heimastjórnarsvæðin.

Að sögn heimildarmanna skuldar heimastjórnin olíufyrirtækinu jafnvirði um 26 milljónir dala.

Heimastjórnin er í miklum fjárhagserfiðleikum sem gætu orðið enn verri í kjölfar sigurs Hamassamtakanna í þingkosningum í síðasta mánuði. Bæði Bandaríkin og Evrópusambandið hafa hótað að hætta fjárstuðningi við heimastjórnina ef Hamas viðurkennir ekki tilverurétt Ísraelsríkis og virðir ekki áður gerða samninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert