Hamas afhendir Abbas ráðherralista

Ismail Haniyeh afhendir Mahmud Abbas ráðherralistann.
Ismail Haniyeh afhendir Mahmud Abbas ráðherralistann. AP

Hamassamtökin afhentu Mahmud Abbas, forseta heimastjórnar Palestínumanna, ráðherralista nýrrar heimastjórnar í kvöld. Hamas fékk hreinan meirihluta á heimaþingi Palestínumanna í kosningum í byrjun ársins en bauð samt öðrum herskáum samtökum aðild að ríkisstjórninni. Því boði var hafnað.

Ismail Haniyeh, forsætisráðherraefni Hamas, sagði að 24 ráðherrar yrðu í stjórninni, þar á meðal ein kona og einn kristinn maður auk tveggja háttsettra embættismanna Hamas, þeirra Mahmud al-Zahar og Said Siam.

Abbas sagðist myndu leggja listann fyrir framkvæmdanefnd Frelsissamtaka Palestínu á morgun.

Háttsettur ísraelskur embættismaður sagði í kvöld, að Ísraelsstjórn myndi ekki eiga nein samskipti við ríkisstjórn Hamas, sem hann sagði vera hryðjuverkastjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert