Tyrkir sagðir ætla að leyfa hernum að fara inn í Írak

Tyrkneskir sérsveitarmenn sjást hér við landamæri Tyrklands og Íraks.
Tyrkneskir sérsveitarmenn sjást hér við landamæri Tyrklands og Íraks. AP

Tyrkneskir þingmenn munu ræða tillögu í dag sem leyfir hernum að fara yfir landamærin til Íraks og gera árásir á bækistöðvar uppreisnarmanna Kúrda í norðurhluta landsins. Búist er við því að mikill meirihluti þingmannanna muni samþykkja tillöguna þar sem mikill stuðningur er í landinu við því að herinn beiti sér gegn uppreisnararmi kúrdíska verkamannaflokksins (PKK).

PKK eru sökuð um að hafa staðið á bak við fjölda árása sem hafa verið gerða í Tyrklandi á undanförnu. Átökin eru þó ekki ný af nálinni heldur eiga þau rætur að rekja tvo áratugi aftur í tímann.

Bandaríkjamenn hafa hinsvegar áhyggjur af því farin tyrkneski herinn inn í norðurhluta Íraks þá muni það grafa undan stöðugleikanum þar.

Þá eiga Bandaríkjamenn í deilum við Tyrki vegna þess að Bandaríkjaþing samþykkti að viðurkenna fjöldamorðin yfir Armenum á tímum Tyrkjaveldisins sem þjóðarmorð.

Bandaríkin eru með herstöð í Tyrklandi sem er mikilvæg fyrir Bandaríkjamenn á þessu svæði. Sumir hafa haldið því fram að deilan muni hafa áhrif á herstöðina í Incirlik eða aðrar birgðalínur, sem eru afar mikilvægar fyrir Bandaríkjaher sem staðsettur er í Írak og Afganistan.

Fréttavefur BBC skýrði frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert