Formaður Ferðamálaráðs: ummæli breska ráðherrans ósvífin

Hvaleiðar við Ísland. Hrefnuveiðibáturinn Njörður KÓ hífir hrefnu um borð.
Hvaleiðar við Ísland. Hrefnuveiðibáturinn Njörður KÓ hífir hrefnu um borð. AP

„Mér finnst með ólíkindum og ekki sæma ráðherra í Bretlandi að láta slíkt úr úr sér," segir Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður og formaður Ferðamálaráðs Íslands, um ummæli Bens Bradshaws, sjávarútvegsráðherra Bretlands, en hann hefur lýst yfir stuðningi við það að almenningur í Bretlandi sniðgangi íslenskt fiskmeti og sneiði hjá ferðalögum til Íslands í mótmælaskyni við vísindaveiðar á hrefnu.

„Hér um að ræða fullvalda þjóð, sem byggir afkomu sína á sjávarútvegi, sem kýs að hefja rannsóknir á eigin hafsvæði. Þessar rannsóknir fela í sér að við þurfum að fella 38 hrefnur úr stofni sem telur að minnsta kosti 43 þúsund dýr. Veiðarnar eru forsendan fyrir því að geta fylgst með lífríki hafsins. Að ráðherra í öðru ríki bregðist við með þessum hætti er ótrúlegt, ósvífið og að mínu mati hrein afskipti af máli sem eru innanríkismál Íslendinga," segir Einar K. Guðfinnsson í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Hann segir að það mætti líkja ummælum breska ráðherrans við það ef Íslendingum mislíkaði eitthvað í fari breskra stjórnvalda og færu að beita hótunum um viðskiptalegar þvinganir. „Þetta er ótrúlegt mál," sagði Einar og taldi það í raun vera vandamál sem snéri að bresku ríkisstjórninni.

Spurður hvort hann óttist afleiðingar ummæla Bradshaws sagði Einar að þau væru frekar til skaða, en þau væru engu að síður algjörlega úr samhengi við allt. „Það hvarflar ekki að mér að þau hafi í raun áhrif. Ég taldi sjálfur að viðbrögð við ákvörðun okkar um að hefja vísindaveiðar yrðu jafnvel meiri en þau hafa orðið. Mér sýnist af þeim fréttum sem hafa borist að þessi viðbrögð séu frekar einstök heldur en almenn."

Einar sagði að sér sýndist á viðræðum sínum við erlenda stjórnmálamenn að hvalveiðar væru ekki það mál sem risti hvað dýpst í þjóðarsálum nágrannaríkjanna. „Ég hef því ekki trú á því að þessi eðlilega ákvörðun Íslendinga hafi nein merkjanleg áhrif á ferðaþjónustu til lengri tíma, en hafi einhver áhrif til skamms tíma."

Breski ráðherrann sagði að almenningur í Bretlandi gæti látið skoðun sína í ljós svo að undan svíði með því að kaupa ekki íslenskar vörur og heimsækja ekki Ísland til hvalaskoðunarferða, en hann sagði að það væri atvinnustarfsemi sem aflað hefði meiri tekna en hvaladráp gætu nokkurn tíma gert, að því er fram kom í dagblaðinu Independent. Blaðið segir að ummæli ráðherrans muni verka sem vítamínsprauta á baráttu umhverfisverndarsamtaka sem hvetji neytendur til að „hugsa sig um tvisvar" áður en þeir kaupi íslenskar vörur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert