Ölgerðin notar íslenskt bygg í fyrsta sinn við bruggun

Ásgeir Kristinsson, Guðmundur Mar Magnússon og Haraldur Benediktsson með bjórinn …
Ásgeir Kristinsson, Guðmundur Mar Magnússon og Haraldur Benediktsson með bjórinn sem bruggaður er úr íslensku byggi.

Ölgerðin Egill Skallagrímsson hefur sett á markað svonefndan Egils Þorrabjór sem er að hluta bruggaður úr íslensku byggi. Að sögn ölgerðarinnar er þetta fyrsti íslenski bjórinn sem bruggaður er úr heimaræktuðu byggi og settur á markað hér á landi.

Íslenska byggið er frá Ásgeiri Kristinssyni, bónda á Leirá í Borgarfirði, en hann hefur ræktað bygg frá árinu 1997. Guðmundur Mar Magnússon, bruggmeistari hjá Ölgerðinni, segir kornrækt hafa verið í mikilli sókn hérlendis á síðastliðnum árum og ekkert sé því til fyrirstöðu að nota íslenskt bygg við bruggun bjórs.

Jónatan Hermannsson, tilraunastjóri á Rannsóknastofnun landbúnaðarins, segir að nái íslenskt korn fullum þroska sé það jafngott og erlent.

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir að bruggun bjórs úr íslensku byggi skapi ný sóknarfæri í byggrækt, fleiri störf og meiri virðisauka. Á nýliðnu ári ræktuðu 410 aðilar bygg á Íslandi en uppskeran, sem aukist hefur ár frá ári, nam um 10.600 tonnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert