Gorbatsjev segir Bandaríkin sýkt af sigursæld

Mikhail Gorbatsjev ávarpar ráðstefnu í N.J. í Bandaríkjunum á mánudag.
Mikhail Gorbatsjev ávarpar ráðstefnu í N.J. í Bandaríkjunum á mánudag. AP

Mikhail Gorbatsjev, fyrrum forseti Sóvétríkjanna, sagði á samkomu sem haldin var í nafni Sameinuðu þjóðanna í gær að Bandaríkin sýndu hræsni í umfjöllun sinni um kjarnorkumál þar sem þau legðu hart að öðrum ríkjum að hætta kjarnorkutilraunum á sama tíma og þau sýndu engan vilja til að minnka kjarnorkuvopnabúr sitt. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

„Ég tel að Rússar séu tilbúnir til samstarfs. Nú er það bara spurningin hvort Bandaríkin, sem eru eina stórveldið sem eftir er, séu tilbúin til þess. Sjálfur tel ég að svo sé ekki," sagði hann. „Ég held að Bandaríkin séu veik og þau þjást vegna þess. Sjúkdómurinn felst í sigursæld þeirra og þau þurfa að lækna sig af þeim sjúkdómi."

Þá sagði hann ekki rétt að Bandaríkin reyni að telja öðrum þjóðum trú um að þau þurfi ekki á kjarnorkuvopnum að halda þegar þau eigi sjálf stór kjarnorkuvopnabúr.

Gorbatsjev sagði þetta er hann veitti Ted Turner, stofnanda CNN sjónvarpsstöðvarinnar og stuðningsaðila Sameinuðu þjóðanna Allan Cranston friðarverðlaunin og tók Turner undir það viðhorf hans að Bandaríkjamenn væru hræsnarar.

„Það er hræsni í mínum huga að við, með okkar 30.000 kjarnorkuvopn, skulum segja öðrum minni þjóðum fyrir verkum, sumum minni þjóðum því það virðist vera í lagi með önnur. Ég held ekki að við höfum nokkurn tíma sagt nokkuð um kjarnorkuvopnaeign Ísraela. Annars finnst mér við ekki geta sagt neitt þegar við eigum sjálf þetta mikið af vopnum," sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert