Fjármálaráðuneyti segir líkur á harðri lendingu hagkerfisins afar litlar

Fjármálaráðuneytið telur litlar líkur á svonefndri harðri lendingu íslenska hagkerfisins.
Fjármálaráðuneytið telur litlar líkur á svonefndri harðri lendingu íslenska hagkerfisins.

Fjármálaráðuneytið segir að þótt vissulega séu einhverjar líkur á að íslenska hagkerfið verði fyrir harðri lendingu, rétt eins og það alþjóðlega, eftir uppsveiflu síðustu missera, þá sé það mat fjármálaráðuneytisins að þær líkur séu harla litlar. Ítrekar ráðuneytið þar með þessa niðurstöðu sína, sem birtist í endurskoðaðri þjóðhagsspá í vor.

Í nýju vefriti fjármálaráðuneytisins segir, að lífleg umræða hafi verið að undanförnu um líkur á harðri lendingu í íslensku efnahagslífi. Nýverið hafi Standard & Poor’s breytt horfum fyrir skuldbindingar ríkissjóðs úr stöðugum í neikvæðar, en haldið óbreyttum góðum lánshæfiseinkunnum ríkissjóðs. Þessi niðurstaða sé rökstudd með því að meiri verðbólga í kjölfar gengislækkunar auki líkur á að Seðlabanki Íslands þurfi að hækka stýrivexti meira en ella til að halda verðbólgu í skefjum en það geti framkallað harða lendingu.

„En hvað er hörð lending? Hörð lending er djúp niðursveifla í efnahagslífinu sem einkennist af ört vaxandi atvinnuleysi og vanskilum heimila og fyrirtækja. Við það dregur úr útlánagetu fjármálastofnana og fjármálakerfið verður jafnvel óstarfhæft. Reynslan sýnir að ríkissjóðir landa sem lent hafa í slíku hafa tekið á sig skuldbindingar lánastofnana að því marki sem þarf til að fjármálakerfið geti áfram sinnt hlutverki sínu," segir fjármálaráðuneytið og rekur síðan ýmis rök fyrir því að að ólíklegt sé að lendingin verði hörð. Bendir ráðuneytið á, að undirstöður íslenska hagkerfisins séu sterkar en eignir heimilanna séu þrefaldar á við skuldir þeirra og staða ríkissjóðs með eindæmum góð. Stór hluti tekna íslenskra fyrirtækja, þar á meðal bankanna, sé í erlendri mynt sem dragi úr gengisáhættu þeirra. Eiginfjárstaða bankanna sé einnig góð og þrátt fyrir óróa á fjármálamörkuðum hafi þeir getað endurfjármagnað skammtímaskuldbindingar sínar án teljandi vandkvæða. Rannsóknir hafi sýnt að bankarnir þola umtalsverðar breytingar á gengi og vanskilum. Einnig skipti máli, að alþjóðlegt efnahagslíf sé í blóma um þessar mundir og fjármálamarkaðir hafi upp á nægt lánsfé að bjóða. Að lokum er nefnt, að talsverðar líkur séu á frekari stóriðjuframkvæmdum á komandi misserum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka