Óhollt að sitja beinn í baki

Það er óhollt að sitja beinn í baki, samkvæmt niðurstöðum skoskra og kanadískra vísindamanna, þar sem það reynir óþarflega mikið á bakið. Best er að halla sér lítið eitt aftur á bak í stólnum, þannig að maður myndi um 135 gráðu horn.

Frá þessu greinir á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Vísindamennirnir beittu segulómskoðun við rannsókn sína, sem gerð var í Aberdeen. Tuttugu og tveir sjálfboðaliðar tóku þátt í könnuninni, og kenndi enginn þeirra sér bakmeins.

Könnuð var hreyfing hryggþófa sem fylgdi þrem stellingum, beinu baki, hoknu og lítið eitt afturhallandi.

Hryggþófarnir, sem eru brjósk á milli hryggjarliðanna, hreyfðust mest þegar setið var með beint bak, þannig að líkaminn myndaði 90 gráðu horn, en fætur voru á gólfinu. Minnst var hreyfingin ef setið var í lítið eitt afturhallandi stöðu.

Að sitja hokinn reyndi mikið á neðstu hryggjarliðina. Vísindamennirnir segja að þegar á allt sé litið sé best fyrir bakið að halla lítið eitt aftur á bak þegar setið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert