Benítez segir Liverpool ekki komið áfram

Rafael Benítez fylgist með Harry Kewell og Steve Finnan á …
Rafael Benítez fylgist með Harry Kewell og Steve Finnan á æfingu fyrir leikinn gegn PSV. Reuters

Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool reynir eftir mætti að halda sínum mönnum við efnið fyrir leikinn gegn PSV Eindhoven í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Liverpool vann fyrri leikinn í Hollandi, 3:0, og flestir líta á það sem formsatriði fyrir liðið að tryggja sér sæti í undanúrslitunum þar sem það myndi mæta Chelsea. Benítez segir að allt geti gerst í fótbolta og lið sitt verði að vera á tánum í kvöld.

Ronald Koeman, þjálfari PSV, hefur lýst því yfir að úrslitin séu ráðin en auk þess að fá þennan skell á heimavelli hefur liðinu gengið illa í hollensku úrvalsdeildinni að undanförnu og misst gott forskot niður í aðeins tvö stig. Grétar Rafn Steinsson og félagar í Alkmaar gætu rænt meistaratitlinum af PSV á lokasprettinum.

„Við erum engir kjánar, við vitum að við erum með annan fótinn í undanúrslitunum, en við þurfum að komast í gegnum þennan leik áður en við förum að svo mikið sem hugleiða leikina þar. Þetta verður skrýtinn leikur og við þykjum afar sigurstranglegir. En við minnumst þess sem gerðist árið 2005 þegar við vorum ekki taldir eiga möguleika gegn Juventus, Chelsea og AC Milan, og hvernig við unnum þessi lið. Það er allt hægt í fótbolta. Ég hef sagt við leikmennina að í framhaldi af þessu verðum við að vinna næstu tvo til þrjá deildaleiki til að tryggja okkur eitt af fjórum efstu sætunum í úrvalsdeildinni, en eftir það getum við farið að einbeita okkur að Evrópukeppninni, hvíla leikmenn og þess háttar. Leikmennirnir vita hvernig ég vil hafa þetta," sagði Benítez.

Hann vill að sínir menn byrji leikinn í kvöld af krafti. „Ég hef rætt við menn um að vera ekki værukærir. Þeir eru klárir í slaginn og vita að verkefnið verður auðveldara ef við skorum fyrsta markið. Málið er að byrja leikinn á miklum hraða, skora mark og hleypa PSV ekki inní leikinn. Þetta er sú staða sem ég vil helst fá upp og við þurfum að halda fullri einbeitingu og ekki hugleiða að verkefninu sé lokið fyrr en flautað til leiksloka. Þetta er eftir allt saman gífurlega mikilvægur leikur fyrir okkur og við megum ekki leyfa okkur að gera mistök," sagði spænski knattspyrnustjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert