Davíð Oddsson: Vill bregðast við hringamyndun með nýjum lögum

Davíð Oddsson forsætisráðherra segir að allt bendi til að samruni fyrirtækja og einokunartilburðir í kjölfarið sé að verða meinsemd í íslenzku viðskiptalífi og vill bregðast við því. Davíð vill mæta samruna og hringamyndunum með nýrri löggjöf, sem gefa myndi fyrirtækjum aðlögunartíma að breyttu lagaumhverfi. Þetta kemur fram í áramótagrein forsætisráðherra í Morgunblaðinu í dag.

"Nefnd, sem ríkisstjórnin fól menntamálaráðherra að skipa, vinnur nú að athugun á samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, en eins og kunnugt er skortir hér slíkan lagaramma öfugt við það sem gerist í flestum þeim löndum sem við þekkjum til," segir Davíð í grein sinni. "Lög, sem á niðurstöðum nefndarinnar yrðu byggð, myndu auðvitað ekki verða afturvirk. Aðilum, sem þau kynnu að taka til, yrði gefinn hæfilegur tími til að laga sig að hinu nýja lagaumhverfi."

Davíð segir að þessar aðstæður minni á að Samkeppnisstofnun hafi á sínum tíma ekki talið sig hafa lagaskilyrði til að stemma stigu við tiltekinni ákvörðun sem leiddi til samþjöppunar á matvörumarkaði. "Úr þeim lagaannmörkum hefur nú verið bætt. Það þýðir, með öðrum orðum, að slíkur samruni sem nú er orðinn, hefði ekki náð fram að ganga miðað við þau lög sem gilda í landinu," segir Davíð. "Nauðsynlegt virðist að bregðast við þessu og vaxandi hringamyndunum á ýmsum sviðum með nýrri löggjöf sem gefa myndi þeim sem í hlut ættu tiltekinn aðlögunartíma að breyttu lagaumhverfi. Öll merki benda til þess að samruni fyrirtækja og einokunartilburðir í kjölfarið séu að verða meinsemd í íslensku viðskiptalífi. Við því er sjálfsagt og eðlilegt að bregðast."

Gagnasafn Mbl: Við áramót

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka