„Stenst fánalög“

„Fánalögin voru höfð til hliðsjónar til þess að menn væru ekkert að ganga í berhögg við þau í auglýsingunni,“ segir Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone. Nokkur umræða hefur skapast um lok auglýsingarinnar „Skítt með kerfið“ þar sem sjá má eitthvað sem líkist íslenska fánanum, en búið er að hengja bæði auglýsingu og keðjur í fánann.

„Við teljum okkur klárlega fara eftir öllum settum reglum. Grundvallaratriðið er að við erum ekki að nota fánann, heldur fánalitina, sem er tvennt ólíkt. Mig minnir að það sé tólfta grein fánalaganna sem kveður á um hvað má og hvað ekki. Þessi grein er hins vegar mjög opin og ekki mjög skýr,“ segir Hrannar.

„Við erum að nota fánalitina sem er ákveðin skírskotun til kerfisins, og það er auðvitað verið að nota gömul minni úr pönkmenningunni sem menn þekkja. Menn sjá kannski fyrir sér sveitir á borð við Sex Pistols sem veifaði breska fánanum, þannig að þetta er þekkt minni.“

Aðspurður segist Hrannar vissulega hafa heyrt gagnrýnisraddir. „Við teljum okkur vera réttum megin við línuna, en ég veit að einhverjum finnst þetta á mörkunum eða jafnvel öfugum megin.“

Þá segir Hrannar að engin kæra hafi borist fyrirtækinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert