Staðan skýrist í næstu viku

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Árni Sæberg

Vinna við áætlun í ríkisfjármálum, þar sem farið er nákvæmlega yfir niðurskurðartillögur og breytingar á skattamálum á næstu árum, er langt komin og er stefnt á að kynna þær eftir helgi. „Vonandi verður hægt að gera enn frekar grein fyrir stöðu mál í byrjun næstu viku,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Eins og greint er frá í Morgunblaðinu í dag er stefnt á að skorið verði niður um tíu prósent í ráðuneytum, öllum nema menntamála-, heilbrigðis-, og félagsmálaráðuneytum. Stefnt er á 7 prósent niðurskurð í rekstri menntamálaráðuneytisins og 5 prósent  í heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti. Samtals er það um 14 til 17 milljarðar, sé mið tekið af rekstrargjöldum fyrir fjárlög þessa árs.

„Það þarf að horfast í augu við stöðuna í heild, en það er erfitt að segja nákvæmlega til hvaða aðgerða verður gripið á árunum 2012 og 2013, svo dæmi séu tekin. Það verður að meta aðstæður á hverjum tíma, en jafnframt að vera með heildstæða áætlun í þessum efnum,“ sagði Steingrímur.

Fulltrúar stjórnvalda hafa í dag fundað með aðilum vinnumarkaðarins og hafa ýmis mál er varða ríkisfjármál og aðgerðir fyrir atvinnulífið verið rædd. Ekki liggur enn fyrir hvort Samtök atvinnulífsins muni segja upp kjarasamningi fyrir mánaðarmót eins og margt hefur bent til. Sérstaklega hafa forvarsmenn atvinnurekenda lagt ríka áherslu á að stýrivextir verði lækkaðir, en þeir eru nú 12 prósent.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka