Samningaviðræður við ESB verða erfiðar

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag hann teldi að samningaviðræður um aðild að Evrópusambandinu verði erfiðar og muni markast af því með hvaða hætti tekst að leiða til lykta deilumál innan landbúnaðar og sjávarútvegsmála.

Össur var að svara fyrirspurn frá Birgi Ármannssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks um hvað liði undirbúningi samningsmarkmiða Íslendinga vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandsins.  

Sagði Birgir, að svo virtist sem einu aðgerðirnar af hálfu íslenskra stjórnvalda varðandi aðildarumsóknina, væru að svara spurningum Evrópusambandsins. „Ég get ekki litið svo á öðru vísi en svo, að þessi dráttur á mikilvægum undirbúningi fyrir aðildarviðræðurnar sé töluvert á skjön við yfirlýsingar og ummæli utanríkisráðherra, sem hefur ítrekað lýst því yfir í fjölmiðlum, að undanförnu, að hann vonist til og reikni með að Ísland verði tekið inn í Evrópusambandið á einhverjum methraða," sagði Birgir.

Össur sagði, að Birgir hefði hugsanlega verið að lesa Morgunblaðið eða hefði einu upplýsingarnar þaðan um að hann hefði sagt að Ísland myndi fara á methraða inn í ESB. „Þetta er allt saman uppspuni úr leiðarahöfundum Morgunblaðsins, sem háttvirtur þingmaður hefur greinilega miklu nánara samband við heldur en utanríkisráðherra eins og sakir standa. Ég hef aldrei haldið slíku fram. Ég hef hins vegar sagt, sem rétt er, að Ísland er komið lengra áleiðis í samrunaferli en mörg önnur ríki, sem hafa hug á að fara þar inn eða hafa farið þar inn á umliðnum árum þegar þau hófu sína ferð," sagði Össur.

Hann sagðist telja, að samningaviðræðurnar verði erfiðar og muni markast af því með hvaða hætti tekst að leiða til lykta deilumál innan landbúnaðar og sjávarútvegsmála sérstaklega. „Þar stöndum við allir sem þjóðhollir Íslendingar og þar höfum við þetta leiðarhnoða sem er meirihlutaálit (utanríkismálanefndar Alþingis).

Össur sagði að spurninga- og svaraferlinu muni væntanlega ljúka um miðjan nóvember. „Þá hefst samkvæmt þessu ferli rýning löggjafarsambandsins við löggjöf Íslands. Þegar því er lokið þá fyrst skapast forsendur til að móta samningsafstöðu á einstökum samningssviðum og þá er það hlutverk einstakra samningahópa, samninganefndar og aðalsamningamanns að móta afstöðu Íslands að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis og að teknu tilliti til allra þeirra sjónarmiða sem koma fram í téðu meirihlutaáliti," sagði Össur.

Birgir sagðist ekki átta sig á því, hvers vegna bíða ætti með mótun samningsmarkmiða Íslendinga eftir að spurningalistunum hafi verið svarað. Sagðist Birgir kalla eftir því að Ísland mótaði sér skýr samningsmarkmið, sem farið verði með inn í aðildarviðræðurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert