Skanska hættir þátttöku í Kárahnjúkum

Sænski byggingarrisinn Skanska AS hefur hætt við þátttöku í útboði vegna virkjunarframkvæmda á Austurlandi. Til stóð að Ístak, Skanska, Phil & Søn og norska fyrirtækið Veidekke legðu sameiginlega fram tilboð í stíflugerðina en Ístak, Skanska, Phil & Søn og Vinci Construction Grands Projects frá Frakklandi í aðrennslisgöngin en opna á tilboðin í þessar framkvæmdir 29. nóvember.

Skanska, sem velti um 1.570 milljörðum íslenskra króna í fyrra, var ábyrgðaraðili vegna sameiginlegs tilboðs hópanna en talsmenn Skanska vilja alls ekkert gefa upp um ástæður þess að fyrirtækið hefur hætt við þátttöku. Skanska hefur komið að fjölmörgum verkefnum hér á landi og þá oft í samvinnu við Ístak, s.s. Hrauneyjarfossvirkjun, Sultartangavirkjun, Blönduvirkjun, Hvalfjarðar- og Vestfjarðagöngum.

Íslenskir aðalverktakar bjóða í verkið með NCC International AS frá Svíþjóð og Hochtief Construction AG frá Þýskalandi. Upphaflega voru fimm fyrirtæki/fyrirtækjahópar valin í forvali Landsvirkjunar en þýskt verktakafyrirtæki hefur áður dregið sig til baka.

Talið er að kostnaður vegna virkjunar og ganga nemi gróflega um 60% af kostnaði Landsvirkjunar við Kárahnjúkavirkjun sem er áætlaður 95 milljarðar þannig að útboðið er hugsanlega upp á 50 til 70 milljarða. Peter Gimbe, yfirmaður upplýsingasviðs Skanska í Svíþjóð, staðfesti í samtali við Morgunblaðið að Skanska yrði ekki með: "Jú, það er rétt að við höfum ákveðið að taka ekki þátt í tilboðsgerð vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á Íslandi. Það liggur nú fyrir að Skanska mun ekki leggja fram tilboð í þær framkvæmdir," segir Gimbe.

Aðspurður hvort umhverfissjónarmið hafi ráðið úrslitum um þessa ákvörðun, segir Gimbe að Skanska vilji ekki tjá sig um ástæður þess að það hættir við. "Við bjóðum í mörg verk á hverjum tíma en stundum bjóðum við ekki í verk og við gefum ekki upp ástæður þess þegar við ákveðum að bjóða ekki eða hætta við að bjóða."

Páll Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Ístaks, vill ekki tjá sig um brotthvarf Skanska, sem fór fyrir þeim fyrirtækjahópi sem Ístak var þáttakandi í og segir það reglu að stjórnendur Ístaks tjái sig ekki um útboð sem standi yfir en hann staðfestir þó að Ístak sé enn að vinna að tilboðinu.

Þorsteinn Hilmarsson hjá Landsvirkjun segir að þótt Skanska hafi hætt við þátttöku breyti það ekki afstöðu Landsvirkjunar til verktakahópsins sem Ístak er í. "Það væri t.d. ekki andstætt útboðsreglum ef þeir fengju annan aðila til liðs við sig í stað Skanska. Jafnvel þótt fram fari forval vita menn í raun ekki fyrr en á lokaskiladegi hvort allir þeir sem hugðust gera tilboð gera það svo þegar upp er staðið," segir Þorsteinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert