NCC telur Kárahnjúkaverkið of áhættusamt

Verktakafyrirtækið NCC International AS, sem er í aðaleigu sænskra og norskra aðila, tilkynnti Landsvirkjun í gær að það myndi ekki taka þátt í útboði á gerð stíflu og aðrennslisganga við Kárahnjúkavirkjun, en tilboð verða opnuð á morgun. Telur fyrirtækið áhættuna af framkvæmdinni of mikla.

NCC var í hópi með Íslenskum aðalverktökum og þýska fyrirtækinu Hochtief AG. Samkvæmt heimildum blaðsins náðist ekki samkomulag meðal þeirra um tilboðsgerðina. Munu síðarnefndu fyrirtækin áfram hafa aðgang að gögnum NCC og ætla að halda sínu striki.

NCC er þriðji verktakinn sem á skömmum tíma hættir við þátttöku í útboðinu en hinir eru Skanska AS og Veidekke ASA, sem tilheyrðu hópi með Ístaki og Phil&Søn. Þá er líklegt, samkvæmt upplýsingum blaðsins, að franskt fyrirtæki, Vinci, sem ætlaði að vera með í útboði á göngunum, hætti einnig við.

Ástæðan fyrir því að NCC hættir við kemur fram í bréfi forstjóra fyrirtækisins til Landsvirkjunar. Þar segir að vegna áhættunnar af framkvæmdinni geti NCC ekki haldið áfram í verkefninu miðað við núverandi aðstæður. Forstjórinn, Alf Göransson, harmar að þessi ákvörðun, sem tekin hafi verið eftir vandlega íhugun, sé tilkynnt svo skömmu fyrir opnun tilboða og vonar að hún hafi ekki neikvæð áhrif á Landsvirkjun og framhald virkjanaframkvæmda.

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir aðspurður hverjir taki mestu áhættuna á sig, að bæði verkkaupi og -sali taki á sig ákveðnar skuldbindingar, það sé eðli allra samninga, og ef ekki takist að standa við ákvæði samninga hafi það afleiðingar í för með sér, m.a. dagsektir ef framkvæmdir tefjast. Umfang verksins sé mikið og tímaramminn þröngur og þessa þætti m.a. þurfi verktakar að vega og meta.

Stærsta útboð á Íslandi

Útboðið á stíflugerð og borun aðrennslisganga er hið stærsta sem fram hefur farið hér á landi en áætlaður kostnaður við þessa verkþætti er um 40 milljarðar króna. Forval á verktökum fór fram fyrir um ári vegna þeirrar virkjunar sem átti að reisa við Kárahnjúka fyrir álver Reyðaráls. Átta verktakahópar sýndu áhuga og fimm voru valdir til að gera tilboð. Fjórir héldu áfram eftir að Alcoa tók við verkefninu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert