Franska fyrirtækið Vinci býður ekki í aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar

Verktakafyrirtækin E. Pihl&Søn og Ístak eru í samstarfi við breska fyrirtækið Balfour Beatty Major Projects um tilboð í aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar. Marjorie Hooper, upplýsingafulltrúi Balfour Beatty, staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið í gær. Páll Sigurjónsson, forstjóri Ístaks, vildi ekkert tjá sig um málið, sagði það skýrast í dag hvaða fyrirtæki skiluðu inn tilboðum hjá Landsvirkjun.

Breska fyrirtækið var eitt þeirra sem valin voru til þátttöku í útboði á stíflu virkjunarinnar og aðrennslisgöngum. Í einum verktakahópanna sem hugðust bjóða í göngin hafa tvö fyrirtæki hætt við, Skanska og nú franska fyrirtækið Vinci, og eftir stóðu E. Pihl&Søn og Ístak. Tveir verktakahópar til viðbótar fengu útboðsgögn, annars vegar ítalska fyrirtækið Impregilo S.p.A. og hins vegar Íslenskir aðalverktakar og þýska fyrirtækið Hochtief, sem þar til á miðvikudag voru í hópi með NCC International AS. Búist er við að fyrrnefndir verktakahópar bjóði einnig í stíflugerðina en í þeim verkþætti kom AF-Gruppen til liðs við Ístak og E. Pihl&Søn í stað Skanska og Veidekke.

Áhættan of mikil að mati Skanska

Líkt og hjá NCC International réð áhættan við gerð Kárahnjúkavirkjunar einnig töluverðu um að sænska verktakafyrirtækið Skanska AS hætti við að gera tilboð í stíflu og aðrennslisgöng virkjunarinnar, en tilboð verða opnuð í dag í stjórnstöð Landsvirkjunar við Bústaðaveg. Talsmaður Veidekke ASA í Noregi vill ekki gefa upp ástæður þess að fyrirtækið hætti við tilboð í stífluna ásamt Pihl&Søn og Ístaki. Upplýsingafulltrúi Skanska, Peter Gimbe, sagði við Morgunblaðið í gær að útboðsgögn vegna Kárahnjúkavirkjunar hefðu verið vandlega skoðuð og málið metið frá öllum hliðum. Að lokinni þeirri vinnu hefði áhættan verið metin það mikil við verkefnið að ekki hefði verið talin ástæða til að vera með í tilboðsgerðinni. Gimbe vildi ekki fara nánar út í það hvaða áhættuþættir hefðu ráðið mestu þar um. Hann sagði að almennt í útboðum sem þessum þyrfti fyrirtækið að taka tillit til tæknimála, fjármála, umhverfismála og siðferðilegra þátta.

Kai Krüger Henriksen, einn forstjóra Veidekke, vildi í samtali við Morgunblaðið ekki upplýsa um ástæðu þess að fyrirtækið hætti þátttöku í hópnum með Skanska, Pihl&Søn og Ístaki. Það væri í virðingarskyni við þau fyrirtæki sem eftir stæðu í hópnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert