Forsvarsmenn SprinkleNetwork til liðs við aðra keðju

Nokkrir af fyrrum forsvarsmönnum sænska netsölufyrirtækisins SprinkleNetwork hafa gengið til liðs við annað svipað fyrirtæki, Eurocash, sem er upprunnið í Noregi en er nú að færa út kvíarnar til Svíþjóðar, að sögn blaðsins Gautaborgarpóstsins.. Í vikunni var haldinn kynningarfundur í litlum sal í hóteli í Mölndal og segir blaðið, að á fundinum hafi Roy Kvamme, einn af stofnendum Eurocash, lofað fundarmönnum, að eftir hálft ár muni þessi litli salur ekki nægja.

„Við erum með sambönd sem engir aðrir hafa. Þótt þetta netsölufyrirtæki lognist út af munu allir þeir sem kaupa hlutabréf nú græða mikla peninga," hefur blaðið eftir Kvamme á fundinum.

Eins og SprinkleNetwork byggist Eurocash á því að félagar í fyrirtækinu fá afslátt af merkjavörum, sem seldar eru á Netinu eða í sérstökum búðum, og einnig umboðslaun. Fyrsta verslunin var opnuð í Hönefoss í Noregi. Norska fjármálaeftirlitið hefur gert ýmsar athugasemdir við starfsemi Eurocahs, að sögn sænska blaðsins.

SprinkleNetwork hóf starfsemi hér á landi á síðasta ári og keyptu hátt í 500 manns sér aðgang að verslunarstarfsemi félagsins. Upp kom mikil óánægja innan hluthafahópsins og krafðist hluti þeirra endurgreiðslu á þeirri forsendu að ekki hefði verið staðið við það sem lofað var.

Frétt Gautaborgarpóstsins

Umfjöllun norska netmiðilsins Hegnar Online

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert