Hratt ekið á Suðurlandi

Lögreglan á Hvolsvelli stöðvaði í síðustu viku bíl, sem ekið var á 142 km hraða á klukkustund skammt vestan við Hvolsvöll. Var þar á ferðinni erlendur ríkisborgari á bílaleigubifreið. Viðurkenndi hann brot sitt fúslega og greiddi 37.500 króna sekt á staðnum.

Þá var ungur ökumaður, með bráðabirgðaökuskírteini, mældur á 138 km hraða á Rangárvöllum, rétt austan við Varmadal, á laugardagskvöld. Gat ökumaðurinn enga skýringu gefið á hraðakstri sínum.

Annar ungur ökumaður, einnig með bráðabirgðaökuskírteini, var mældur á 128 km hraða móts við Brekkur í Rangárþingi ytra sama kvöld. Hafði hann einnig að sögn lögreglu fátt fram að færa sem skýrt gat hraðaksturinn. Í þessum tilfellum var myrkur og súldarþoka að auki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert