Strætó fær fimm nýja strætisvagna afhenta

Fimm nýir strætisvagnar bættust í flota Strætó bs. í dag.
Fimm nýir strætisvagnar bættust í flota Strætó bs. í dag. mbl.is/Árni Torfason

Erna Gísladóttir, forstjóri B&L, afhenti í dag Strætó bs. fimm nýja strætisvagna frá Irisbus en um er að ræða fyrstu vagnana af þrjátíu, sem munu leysa eldri gerðir af hólmi í nokkrum áföngum.

Samkvæmt upplýsingum frá B&L verða 10 vagnar til viðbótar afhentir síðar á árinu, aðrir tíu vagnar í ágúst á næsta ári og síðustu fimm vagnarnir í ágúst 2007. Er þetta mesta endurnýjun sem Strætó hefur ráðist í á vagnaflota sínum, en síðasta endurnýjun átti sér stað árið 2001 með kaupum á 17 nýjum vögnum. Alls eru 75 strætisvagnar í flota Strætó og eru elstu vagnarnir meira en 20 ára gamlir.

Hver hinna nýju vagna rúmar 90 farþega, þar af 34 í sæti. Þeir eru búnir 245 hestafla einbunu CRDi díselvél og fjögurra gíra sjálfskiptingu. Þeir uppfylla nýjustu mengunarvarna- og hljóðmengunarstaðla Evrópusambandsins, auk þess sem þeir eru sparneytnir og því hagkvæmir í rekstri.

Vagnarnir, sem eru í hefðbundinni 12 metra útfærslu, eru svokallaðir lággólfsvagnar með þremur tvöföldum dyrum og innbyggðri braut við miðjudyr sem auðveldar verulega aðgengi fyrir m.a. hjólastóla. Þá eru engar tröppur í þeim, heldur lækka vagnarnir sig niður í gangstéttarhæð fyrir farþega. Þá er hægt að hækka vagnana sem kemur sér m.a. vel þegar færð er erfið vegna snjóa.

Irisbus hefur starfað frá árinu 1999 þegar almenningsvagnaframleiðsla Renault og Iveco var sameinuð. Fyrirtækið er einn stærsti framleiðandi almenningsvagna í heimi, með tæplega þriðjungshlut á alþjóðamarkaði. Strætó bs. var stofnað árið 2001 og er byggðasamlag í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, Ásgeir Eiríksson, framkvæmdastjóri Strætó og Erna …
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, Ásgeir Eiríksson, framkvæmdastjóri Strætó og Erna Gísladóttir, forstjóri B&L, í einum af nýju vögnunum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert