Andstæðingar álversframkvæmda fóru á þak Stjórnarráðsins

Stjórnarráðið við Lækjargötu í Reykjavík. Andstæðingar álvera klifruðu upp á …
Stjórnarráðið við Lækjargötu í Reykjavík. Andstæðingar álvera klifruðu upp á þakið eftir rennum á húsinu. mbl.is

Tveir íslenskir menn um tvítugt klifruðu upp á þak Stjórnarráðsins við Lækjargötu um stundarfjórðung í þrjú í dag. Tóku þeir niður íslenska fánann sem þar blakti við hún og skiptu honum út fyrir borða, þar sem fram komu mótmæli vegna álversframkvæmda á Íslandi. Að sögn lögreglunnar í Reykjavík gista mennirnir nú fangageymslu og verða þeir yfirheyrðir síðar í dag. Ekki er vitað hvort mennirnir tilheyra sama hópi og mótmælti virkjanaframkvæmdum á Kárahnjúkum og Reyðarfirði fyrr í þessum mánuði.

Að sögn lögreglunnar príluðu mennirnir upp eftir rennum utan á húsinu og komust þannig upp á þak Stjórnarráðsins. Lögreglu var tilkynnt um atvikið um stundarfjórðung í 3 í dag. Fóru fjórir lögreglumenn upp á þakið og sýndu mennirnir enga mótspyrnu þegar lögreglan handtók þá.

Ekki kom fram hvaða álversframkvæmdum mennirnir voru nákvæmlega að mótmæla en að sögn lögreglunnar er búist við að það muni væntanlega skýrast við yfirheyrslur yfir mönnunum síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert