Lögreglumaður og innbrotsþjófur lentu í árekstri í Breiðholti

Árekstur varð á milli lögreglubifreiðar og bifreiðar meints innbrotsþjófs í efra Breiðholti nú í morgun. Innbrotsþjófurinn var fluttur á sjúkrahús, en meiðsli hans eru talin vera minniháttar. Lögreglumaðurinn sem lenti í árekstrinum er sagður vera ómeiddur en hann var einnig fluttur á sjúkrahús til skoðunar.

Lögreglan var að veita innbrotsþjófnum eftirför en hann er talinn hafa verið í slagtogi við annan þjóf sem var handtekinn í Ármannsskála í Bláfjöllum, sá gistir nú fangageymslur í Kópavogi. Meintur félagi hans stakk hinsvegar af og veitti lögreglan í Reykjavík honum eftirför sem endaði með fyrrgreindum afleiðingum. Báðar bifreiðarnar sem lentu í árekstrinum eru í óökuhæfu ástandi.

Öryggiskerfi er í skálanum sem fór í gang og gerði lögreglu viðvart, en tilkynningin barst um klukkan fimm í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert