Mikael Torfason ráðinn aðalritstjóri tímaritaútgáfu Fróða

Mikael Torfason, fyrrverandi ritstjóri DV, hefur verið ráðinn aðalritstjóri Fróða. Í síðustu viku var greint frá því að Mikael hefði verið ráðinn ritstjóri Séð og heyrt, sem Fróði gefur út. Elín G. Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri tímaritaútgáfu Fróða, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að Mikael hefði tekið við starfi aðalritstjóra Fróða af Steinari J. Lúðvíkssyni, sem hefði sagt starfi sínu lausu fyrir nokkru.

Elín sagðist ekkert vilja tjá sig um uppsögn Bjarna Brynjólfssonar, sem sagt var upp störfum sem ritstjóra Séð og heyrt í síðustu viku.

Mótmælir ásökunum um fjársvik

Bjarni Brynjólfsson sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að þegar hann hefði mætt til vinnu hjá Fróða í gærmorgun hefði verið búið að loka fyrir aðgang hans að tölvu sinni á skrifstofunni. Í framhaldinu hefði hann verið kallaður á fund hjá Elínu G. Ragnarsdóttur framkvæmdastjóra. „Hún ásakaði mig um fjársvik við fyrirtækið," sagði Bjarni. "Hún vildi ekki greina mér frá því í hverju þær ásakanir fælust."

Bjarni sagði að Elín hefði sagt að ef hann færi ekki út úr húsnæðinu yrði kallað á lögregluna. Honum hefði verið neitað um að fjarlægja persónulegar eigur sínar af skrifstofunni en verið tjáð að þær yrðu sendar heim til hans ásamt bréfi um meint fjársvik. Hvorugt hefði borist til hans í gærkvöldi.

„Ég get ekki annað séð en að það sé vegið með alvarlegum hætti að starfsheiðri mínum og persónu með þessum ásökunum og ég mun leita réttar míns," sagði Bjarni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka