Segir stjórnarformann Alcoa hafa einfaldað mál um of

Jake L. Siewert, forstöðumaður upplýsingamála hjá Alcoa, segir að upplýsingar sem komu fram í grein í brasilísku dagblaði og Alcoa birti til skamms tíma á vefsíðu sinni, um að Alcoa greiði um helmingi minna fyrir raforkuna á Íslandi en í Brasilíu, vera byggðar á misskilningi, sem bæði megi rekja til Alain Belda, stjórnarformanns Alcoa, og blaðamannsins sem tók viðtal við hann. Belda hafi borið flókna samninga saman með of einföldum hætti og blaðamaðurinn hafi „svo einfaldað hlutina enn frekar með þeim afleiðingum að einhverjar upplýsingar fóru forgörðum í ferlinu,“ segir hann.

„Okkur þykir leitt að misskilningur hafi skapast. Það sem fram kom í brasilíska dagblaðinu var ekki rétt. Þar var afar flóknum raforkusamningi lýst eins og hann væri mjög einfaldur,“ segir Siewert.

Hann segir að Alcoa birti oft fréttir á vefsvæði sínum sem fengnar séu úr dagblöðum.

„Við erum með tengla á ýmsar vefsíður þar sem fram koma upplýsingar sem við getum ekki vitað með vissu hvort eru réttar. Við erum meðal annars með tengil inn á Náttúruverndarsamtök Íslands á vefsíðu okkar, en það felur ekki í sér að við teljum að allar þær upplýsingar sem þar koma fram séu réttar,“ segir hann.

Um raforkusamninga Alcoa í Brasilíu og á Íslandi segir Siewert að þeir séu flóknir og ekki hægt að útskýra þá með því að nefna eitt raforkuverð. Samningarnir séu gerðir með langtímahagsmuni beggja samningsaðila að leiðarljósi og þeir breytist með tímanum.

„Brasilíski raforkumarkaðurinn er mjög ólíkur þeim íslenska. Í Brasilíu er eftirspurn eftir raforku langt umfram framboð. Þar búa milljónir manna við fátækt og hafa ekki aðgang að raforku. Brasilíumenn eru að reyna að þróa sinn raforkumarkað til þess að mæta þörfum fólks. Á Íslandi er staðan allt önnur, þið hafið meira en nóg af raforku,“ segir hann.

Þau skilaboð sem Belda hafi viljað koma á framfæri í Brasilíu hafi verið þau að hugsanlegt væri að Brasilíumenn og önnur ríki gætu orðið undir í samkeppni um raforkuverð þegar þau þyrftu að keppa við lönd á borð við Ísland sem hefðu samkeppnisforskot í raforkumálum. Hafi þetta komið fram á fundi sem Belda átti með forseta Brasilíu. Á Íslandi sé ekki aðeins hagstætt raforkuverð, heldur sé skattastefna landsins, gagnsæir stjórnarhættir og fleira í þeim dúr nokkuð sem fjárfestar líti jákvætt á. Alcoa sé ekki eina fyrirtækið sem renni hýru auga til Íslands um þessar mundir.

Siewert segist ekki geta veitt upplýsingar um það verð sem Alcoa hyggist greiða vegna Kárahnjúkavirkjunar. Samningarnir séu flóknir og taki breytingum með tímanum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka