Troðfullt í Árnesi á fundi gegn virkjunum neðri hluta Þjórsár

Fjölmenni var á fundinum í Árnesi.
Fjölmenni var á fundinum í Árnesi. mbl.is/Sig. Jóns.

Nýlokið er mjög fjölmennum fundi gegn virkjunum í neðri Þjórsá sem Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Sól á Suðurlandi boðuðu til í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Í lok fundarins var samþykkt ályktun þar sem fundurinn lagðist eindregið gegn virkjun neðri hluta Þjórsár til að standa undir mengandi starfsemi.

Á fundinum flutti Finnbogi Jóhannsson, bóndi, ávarp heimamanna, formaður landverndar ræddi verðgildi náttúrunnar, Egill Egilsson, viðraði viðhorf sumarhúsaeigenda, Ólafur Sigurjónsson talaði fyrir hönd Flóamanna, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir  flutti kveðju úr þéttbýlinu, Ómar Ragnarsson  var með innlegg, flutt var hugleiðing Jóhönnu Jónsdóttur 93ja ára frá Haga, og Ólafur Þórarinsson flutti óð til náttúrunnar.

Öllum ávörpum var mjög vel tekið og fengu dynjandi lófaklapp. Í fundarlok stóðu fundarmenn á fætur og sungu fjöldasöng.

Ályktunin, sem samþykkt var á fundinum, var eftirfarandi:

    Fjömennur fundur um virkjanir í neðrihluta Þjórsár haldinn í Árnesi 11. febrúar 2007 mótmælir harðlega virkjana áformum Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár og skorar á öll viðkomandi sveitarfélög að veita fyrirhuguðum virkjunum ekki brautargengi. Einnig skorar fundurinn á íslensk stjórnvöld að fórna ekki íslenskri náttúru til framkvæmda sem nýtast eiga til mengandi starfsemi.
Í greinargerð segir, að óafturkræf og veruleg náttúruspjöll verði af virkjunarframkvæmdum. Í ljósi umræðu um þá ógn, sem stafi af hlýnun af mannavöldum sé óviðunandi að fara í þessar framkvæmdir. Fyrirhugaðar framkvæmdir muni auka á óstöðugleika hagkerfisins og skila þeim byggðum sem leggji til orkuna, fáum störfum þegar til framtíðar sé litið. Þá sé Þjórsá á virku jarðskjálfta- og leku spungusvæði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka