Vírus herjar á Facebook

Um 120 þúsund notendur samfélagsvefsins Facebook eiga í stríði við vírus sem þróaður hefur verið með fyrir augum að komast yfir viðkvæmar upplýsingar svo sem vegna greiðslukorta.

Vírusinn kallast „Koobface“ og dreifir sér með því að senda skilaboð í innbox fólks með því að látast vera vinur á Facebook.

Í skilaboðunum er reynt að ginna fólk til að smella á tengil til að horfa á myndskeið. Þegar fólk gerir það og reynir að spila myndskeiðið er það beðið um að hala niður nýjustu útgáfunni af Adobe Flash Player. Ef það er gert er vírusinn vakinn og ræðst á tölvuna.

Samkvæmt því er segir í frétt BBC segja sérfræðingar í tölvuvírusvörnum að tvær leiðir séu fyrir „Koobface“ til að ná greiðslukortaupplýsingum. Í annan stað bíður hann þess að notandinn kaupi eitthvað á netinu og leggur á minnið upplýsingar sem slegnar eru á lyklaborðið. Hins vegar leita hann uppi í minni tölvunar  allar kökur eða „cookies“ sem notandinn kann að vera með í tölvunni frá því hann keypti síðast á netinu og nær í upplýsingarnar þaðan.

Vírusinn sem herjar á Facebook-notendur er einungis síðasta dæmið af mörgum um það hvernig tölvuþrjótar reyna að hagnýta sér samfélagsvefina í auðgunarskyni. Þannig varð MySpace-vefurinn, keppinautur Facebook, fórnarlamb þessa sama vírusar í ágúst fyrr á árinu. Sérfræðingar segja að tölvunotendur sé síður á varðbergi á samfélagsvefjunum vegna þess að þar séu einungis skráðir notendur, þ.e. fólk þurfi að skrá sig til að komast inn á vefinn.

Forráðamenn Facebook hafa ekki gefið upp hversu margir notenda vefjarins hafi orðið fyrir barðinu á vírus þessum en sagt að það sé aðeins lítið brot notenda. Upplýsingar eru komnar inn á vefinn um það hvernig bregðast skuli við verði fólk vart við vírusinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert