Mascherano óskar eftir sölu frá West Ham

Javier Mascherano, til hægri, vill losna frá West Ham þar …
Javier Mascherano, til hægri, vill losna frá West Ham þar sem hann fær ekkert að spila. Reuters

Argentínski knattspyrnumaðurinn Javier Mascherano hefur óskað eftir því að vera seldur frá West Ham. Hann kom til félagsins frá Corinthians í Brasilíu í lok ágúst ásamt Carlos Tévez en hefur mest lítið fengið að spreyta sig og ekki verið í leikmannahópnum í síðustu sjö leikjum West Ham.

„Ég verð að komast í burtu, ég get ekki verið áfram hjá West Ham án þess að spila. Á mínum aldri er nauðsynlegt fyrir mig að spila, annars staðna ég. Markmið mitt var að standa mig vel í Englandi en ég hef ekki fengið næg tækifæri til að sýna hvað í mér býr. Ef ég kemst ekki í lið West Ham verð ég að reyna fyrir mér annars staðar," sagði Mascherano.

Hann er 22 ára gamall og lék með Argentínu í úrslitakeppni HM síðasta sumar. Reiknað var með að hann yrði liði West Ham mikill styrkur en hann var aðeins þrisvar í byrjunarliðinu og kom tvisvar inná sem varamaður meðan Alan Pardew stýrði West Ham og hefur síðan ekki komist að í leikmannahópnum eftir að Alan Curbishley tók við stjórn liðsins. Mascherano hefur verið orðaður við bæði Liverpool og Juventus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert