Réðist á dómarann og á yfir höfði sér ævilangt keppnisbann

Angel Valodia Matos, t.h., og Leudis Gonzalez, þjálfari hans, rífast …
Angel Valodia Matos, t.h., og Leudis Gonzalez, þjálfari hans, rífast við Chakir Chelbat dómara, t.v. AP

Upp úr sauð í keppni í taekwondoglímu á ólympíuleikunum í Peking í dag þegar kúbanska glímumanninum Angel Valodia Matos var vikið úr keppni í fjórðungsúrslitum. Matos réðist á sænska dómarann Chakir Chelbat og sló hann í andlitið og þurfti að sauma saman vör Svíans.

Kúbumanninum var vikið úr keppni fyrir að taka sér of langan tíma til að láta huga að meiðslum sem hann hlaut í viðureign við Arman Tsjílmanov frá Kasakstan.   

Keppni í kvennaflokki í taekwondo var einnig söguleg en dómarar breyttu fyrri úrskurði og dæmdu bresku konunni Sarah Stevenson sigur á Chen Zhong frá Kína í fjórðungsúrslitum.

Zhong var fyrst dæmdur sigur en Stevenson hélt því fram að dómarar hefðu ekki talið með 2 stig, sem hún átti að fá fyrir spark 10 sekúndum áður en viðureigninni lauk. Stevenson kærði úrslitin og þeim var breytt. Er þetta í fyrsta skipti sem slíkt gerist í keppni í taekwondo á ólympíuleikum en fyrst var keppt þar í þessari íþrótt árið 2000.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert