Lukka hjálpaði Sigurði að yngjast um 28 ár

Lukka Pálsdóttir hjálpaði Sigurði Grímssyni að bæta heilsu sína.
Lukka Pálsdóttir hjálpaði Sigurði Grímssyni að bæta heilsu sína. mbl.is/Árni Sæberg

Lífslíkur Íslendinga eru nokkuð góðar miðað við umheiminn og eru Íslendingar í 22. sæti langlífustu þjóða heims. Konur sem fæðast á Íslandi geta reiknað með að verða um 84 ára en karlar um 81 árs að meðaltali. Lukka Pálsdóttir í Greenfit útskýrir af hverju langlífi segir ekki alla söguna. Hún spyr hvort langlífi sé nógu góður mælikvarði á heilbrigði og hvernig heilbrigði þjóðarinnar er háttað.

„Lífslíkur við heilbrigða ævi“ er mælikvarði sem segir til um hversu lengi fólk má vænta þess að lifa án þess að vanheilsa hamli daglegu lífi. Í skýrslu frá heilbrigðisráðuneytinu má sjá að heilbrigð ævi kvenna á Íslandi mældist árið 2021 tæplega 64 ár og karla tæplega 70 ár. Þetta þýðir að meðalkona á Íslandi getur reiknað með að búa við skerta heilsu og skert lífsgæði síðustu tvo áratugina og karlar um 11 síðustu æviárin. Ef þetta er ekki ævikvöldið sem þú vilt sjá fyrir þér þá er ýmislegt til ráða.

Hér er listi yfir þau 10 atriði sem þú getur fylgst auðveldlega með hjá þér og hafa forspárgildi fyrir heilbrigði og langlífi:

1. Blóðþrýstingur Viðmið 130 / 85 mmhg. Best er talið að blóðþrýstingur sé undir 120/80 mmhg en viðmiðið fyrir efnaskiptalegt heilbrigði er aðeins rýmra eða 130/85 mmhg.

2. Fastandi blóðsykur Viðmið < 5,6 mmól/l.

3. Gripstyrkur Viðmið fer eftir aldri og kyni. Hægt er að nota sem dæmi að fertugur karl á að geta náð 47 kg í gripstyrksprófi og kona á sama aldri 30 kg í gripstyrk. Ef þú hefur ekki tök á að mæla gripstyrk þá má nota nálgun með því að hanga í rimlum. Viðmið er að karlmaður um fertugt geti hangið í 90 sek. og kona í 60 sek.

4. Hámarkssúrefnisupptaka Viðmið fer eftir aldri og kyni. Hægt er að mæla þetta í álagsprófi en einnig gefa ýmis úr nálgun á mat á hámarkssúrefnisupptöku.

5. Vöðvamassi Viðmið fer eftir aldri og kyni. Hægt er að mæla vöðvamassa í líkamssamsetningarmælingu.

6. Blóðfitur Viðmið hdl kólesteról > 1,0 mmól/l fyrir kk og > 1,3 mmól/l fyrir kvk. Þríglýseríð undir 1,7 mmól/l. Mælt í blóðmælingu á fastandi maga.

7. Kviðfita Hægt að mæla með líkamssamsetningarmælingu (mBCA) eða nota mittismál sem nálgun. Viðmið er mittismál < 88 cm fyrir kvk. og < 102 cm fyrir kk.

8. Mjólkursýruþröskuldur Þetta er hægt að mæla í álagsprófi eða nota öndun í hreyfingu sem nálgun. Ef þú skokkar eða gengur á þeim hraða að þú getur ennþá talað en ekki endilega í löngum setningum þá ertu nálægt þessum þröskuldi. Gott er að æfa sig í að hækka þennan þröskuld eða í það minnsta viðhalda honum með reglulegri hreyfingu á rólegu álagi.

9. Gönguhraði Viðmið er gönguhraði > 3,6 km/klst.

10. Tengsl Þetta er erfiðara að magngera og mæla en tengsl eru okkur svo dýrmæt og mikilvægur þáttur í heilbrigði hvers og eins að það var ekki hægt annað en að hafa tengslin með á topp 10 listanum. Það að eiga einhvern nákominn að treysta á. Það að eiga samverustundir með kunningjum og jafnvel spjall við ókunnuga sem verða á vegi okkar í daglegu lífi eru gríðarlega mikilvægir þættir sem skipta verulegu máli. Mannleg snerting er læknandi afl og einn af þeim þáttum sem stuðla að heilbrigði og langlífi.

Alla þessa þætti (nema mögulega tengslin) er hægt að mæla og fylgjast með hvernig þeir þróast yfir ævina. Það sem meira er, við höfum áhrif á það hvernig þeir þróast og þar með á það hversu heilbrigð og langlíf við getum orðið. Það er valdeflandi að vita hvaða þætti við getum sjálf haft áhrif á til að minnka bilið á milli ævilengdar og heilbrigðra æviára. Öll viljum við jú lifa lengi en gæði lífs skipta ekki síður máli. Ávinningurinn er okkar allra, einstaklingurinn sjálfur uppsker auðvitað stærsta ávinninginn í góðri heilsu og heilsutengdum lífsgæðum en ávinningurinn er einnig mikilvægur fyrir samfélagið allt og ekki síst heilbrigðiskerfið sem býr við sívaxandi álag vegna fjölveikinda og langvinnra lífsstílstengdra sjúkdóma. Í rauninni getum við sagt að fjölveikindi og stór hluti langvinnra lífsstílstengdra sjúkdóma eigi sér sömu rót; langvinnt bólguástand, hækkandi blóðsykur og minnkandi vöðvamassi.

Okkur hættir til að leita langt yfir skammt þegar kemur að langvinnum lífsstílstengdum sjúkdómum. Ef lífsstíll er það sem orsakaði vandann þá er langlíklegast að lífsstíll sé besta leiðin út úr vandanum og aftur til heilbrigðis. Þegar fólk fær innsýn í eigin heilsu og réttar upplýsingar þá er eftirleikurinn auðveldari.

Lukka segir langlífi ekki endilega það sama og heilbrigði.
Lukka segir langlífi ekki endilega það sama og heilbrigði. mbl.is/Árni Sæberg

Yngdist um 28 ár á einu ári!

Í Magnavita-náminu í Háskólanum í Reykjavík fengum við í Greenfit nýlega að mæla hóp fólks á ríflega miðjum aldri og fylgja þeim eftir í eitt ár og gera samanburðarmælingar. Í ljós kom að þegar fólk fékk upplýsingar og ráðleggingar var hægt að bæta lífgildi sem hafa forspárgildi fyrir heilbrigt langlífi gríðarlega mikið. Sem dæmi má nefna tæplega 70 ára karlmann sem kom til okkar í fyrri mælinguna í janúar 2023 og þá mældist hámarkssúrefnisupptaka hans rétt undir meðallagi fyrir 69 ára gamlan karlmann eða um 24 ml/mín/kg. Að loknu fræðandi og hvetjandi ári í Magnavita-náminu þar sem áhersla var lögð á að fjölga heilbrigðum æviárum þá kom hann aftur í mælingu til okkar í Greenfit í lok nóvember sama ár. Hann hafði þá bætt súrefnisupptöku sína og mældist nú með 40 ml/mín/kg. Samkvæmt viðmiðum hefur hann nú þrek á við fertugan meðalkarlmann. Á sama tíma lækkaði blóðþrýstingur um 13% og fitubruni í efnaskiptum jókst úr 8% í 68%. Það er því hægt að segja að hann hafi yngst í heilbrigði um 28 ár!

Sigurður Grímsson segist hafa náð árangrinum með því að borða betur og hreyfa sig meira á réttu álagi samkvæmt ráðleggingum eftir álagspróf.

„Í Magnavita-náminu í HR sem stóð yfir í tvær annir var meðal annars farið náið yfir líkamlega heilsu, hreyfingu og mataræði. Lukka Pálsdóttir hjá Greenfit hélt marga áhugaverða fyrirlestra á námskeiðinu um þessi málefni. Hjá Greenfit fór ég í gegnum ýmsar mælingar, s.s. álagsmælingu, súrefnispróf og blóðmælingu sem framkvæmd var hjá Sameind. Þessi próf setti Greenfit svo fram á læsilegu formi. Niðurstöðurnar voru ræddar og farið í gegnum hvar ég gæti gert betur. Ég var til dæmis undir meðallagi í súrefnisupptöku, of þungur og hár í blóðþrýstingi. Þegar þetta lá fyrir ákvað ég að reyna, einu sinni enn, að gera eitthvað róttækt í málunum. Greenfit var á þessum tíma með fræðsluhóp á Facebook um mataræði, Greenfit Clean. Þetta var þriggja vikna matarkúr þar sem unnin kolvetni voru minnkuð verulega og aðeins borðuð hrein kolvetni. Brauði, pasta, hrísgrjónum, kaffi og áfengi var sleppt í þessar þrjár vikur. Eftir þessa „hreinsun“ ákvað ég að halda þessum kolvetnisminni lífsstíl og er núna orðinn nokkuð vanur honum og hyggst halda honum áfram, það er ekkert mál.

Ég borða alltaf mikið af næringarríkum mat en reyni samt að fá mér bara tvisvar á diskinn. Ég léttist um 16 kg (107 kg í 91 kg) á hálfu ári og nú eru liðnir alls 10 mánuðir síðan ég byrjaði og allt gengur vel. Markmiðið er að komast í kjörþyngd (87 kg) fyrir vorið. Einnig jók ég við hreyfingu úr þrisvar í viku í fimm sinnum. Ég syndi og tek styrktaræfingar og þolæfingar, allt eftir uppskriftum frá Magnavita og Greenfit. Mér líður öllum mikið betur í skrokknum og gæti skrifað heila bók um það,“ segir Sigurður.

Sigurður finnur mikinn mun á sér.
Sigurður finnur mikinn mun á sér. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál