Stjarnan í bikarúrslit

Stjörnukonur fagna á Kópavogsvelli í kvöld.
Stjörnukonur fagna á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik og Stjarnan mættust í annað skipti á fjórum dögum í kvöld þegar liðin mættust í undaúrslitum Borgunarbikars kvenna í knattspyrnu. Aftur höfðu Stjörnukonur betur 1:0 og aftur var það Harpa Þorsteinsdóttir sem skoraði eina mark leiksins.

Leikurinn fór rólega af stað þar sem hvorugt liðið virkaði sterkara. Liðin skiptust á að sækja en náðu hvorug að skapa sér almennileg marktækifæri. Rétt fyrir hálfleik, á 44. mínútu skoraði Harpa Þorsteinsdóttir átjánda mark sitt fyrir Stjörnuna í sumar og kom Stjörnunni í 1:0.

Markið kom nánast upp úr engu, löng sending frá Elvu Friðjónsdóttur rataði á Hörpu sem skallaði boltann aftur fyrir sig og inn. Sonný Lára Þráinsdóttir hefði hins vegar átt að gera betur.

Blikar komu grimmir til leiks í síðari hálfleik án þess þó að skapa sér mörg færi til að byrja með. Bæði lið fengu þó heldur betur færi. Stjörnukonur hefðu getað klárað leikinn á 77. mínútu þegar að Harpa Þorsteinsdóttir sendi fyrir á Sigrúnu Ellu sem fékk frítt skot í markteigslínunni en skot hennar fór framhjá.

Blikar hefðu einnig getað komið leiknum í framlengingu þegar rétt rúmar 10 mínútur liðu til leiksloka en eftir mikinn darraðardans í teig Stjörnunnar náði Sandra Sigurðardóttir markvörður að handsama boltann. Blikakonur gerðu hvað þær gátu til að jafna leikinn en inn vildi boltinn ekki.

Stjörnukonur eru því komnar í bikarúrslit og mæta þær liði Selfoss sem spilar í úrslitum í fyrsta skipti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert