„Núna er stór draumur að rætast“

Stjarnan hélt áfram að brjóta niður múra í Póllandi í …
Stjarnan hélt áfram að brjóta niður múra í Póllandi í gærkvöld og nú er Inter næst á dagskrá. Ljósmynd/Adam Jastrzebowsk

„Þetta er frábært fyrir íslenska knattspyrnu. Þetta ævintýri er búið að vera alveg geðveikt fyrir okkur Stjörnumenn og nú fáum við þetta tækifæri, að spila á San Siro,“ sagði Veigar Páll Gunnarsson, leikmaður Stjörnunnar, eftir að ljóst varð að liðið myndi mæta Inter Mílanó.

Liðin mætast í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar dagana 21. og 28. ágúst. Veigar missti af leiknum gegn Lech Poznan í gærkvöld vegna meiðsla, þegar Stjarnan tryggði sig áfram, en liðsfélagar hans eru í flugi á leiðinni heim frá Póllandi.

„Ég efast um að þeir viti nokkuð um hvernig þetta fór. Þeir fá góða fréttir þegar þeir lenda,“ sagði Veigar Páll.

Verð orðinn klár í þessa leiki

„Ég verð orðinn klár í þessa leiki og held að ég geti spilað á mánudaginn [gegn Þór]. Við Rúnar tókum sameiginlega ákvörðun um að taka ekki neina áhættu fyrst ég var tæpur fyrir leikinn í gær. Þess vegna varð ég eftir heima til að reyna að ná mér fyrir næstu leiki í deildinni, og núna Inter!“ bætti hann við.

„Þetta er virkilega ánægjulegt. Það verður stemning að spila á móti svona stórliði. Það var annað hvort að mæta Inter, upp á tækifærið til að mæta svona stórliði, eða að fá Sheriff til að eiga aðeins meiri möguleika til að komast áfram,“ sagði Veigar. „Maður á nokkra félaga sem eru miklir AC Milan menn og ég held að þeir séu þegar búnir að panta sér miða,“ bætti hann við léttur.

Spenntastur fyrir því að mæta Vidic

Lið Inter er stjörnum prýtt og teflir meðal annars fram serbneska miðverðinum Nemanja Vidic sem kom frá Manchester United í sumar.

„Það verður gaman að spila gegn stórstjörnu eins og Nemanja Vidic. Ætli maður sé ekki spenntastur fyrir því. Maður hefur spilað gegn fullt af stórum nöfnum í landsliðinu en það er extra sætt að mæta þessum mönnum þegar þeir eru í svona stórliði, það er eitthvað alveg sérstakt við það. Að vera að spila með litlu Stjörnunni, æskufélaginu, gegn svona stórliði er alveg einstakt. Núna er stór draumur að rætast,“ sagði Veigar. En á Stjarnan einhverja möguleika gegn svona stórliði?

Getum ekki annað en haft trú á þessu

„Ég held að við verðum bara að líta sem svo á að það er auðvitað möguleiki. Það eru auðvitað ekki margir sem hafa trú á þessu, en við innan Stjörnunnar erum með svo góða tilfinningu í liðinu að við getum ekki annað en haft trú á þessu. Við erum ekki að fara að spila fallegan fótbolta en það er hægt að vera bara gríðarlega þéttir og skipulagðir í vörninni, og kannski slysað inn einu marki gegn þeim eins og við gerðum gegn Lech Poznan. Við höfum trú á þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert