Pattstaða á milli Stjörnunnar og Inter

Stjörnumenn hafa enn ekki tapað í Evrópukeppni.
Stjörnumenn hafa enn ekki tapað í Evrópukeppni. Ljósmynd/Adam Jastrzebowsk

Stjarnan og Inter Mílanó gátu ekki komist að samkomulagi um það hvar og hvenær leikir liðanna í 4. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu skuli fara fram. UEFA mun því sjá um að taka ákvörðun í málinu.

Samkvæmt drættinum í dag ættu liðin að mætast á Íslandi í fyrri leiknum þann 21. ágúst, og svo á San Siro 28. ágúst. Heimaleikur Stjörnumanna verður að fara fram á Laugardalsvelli sem er eini völlurinn hérlendis sem stenst allar kröfur UEFA.

Laugardalsvöllur er hins vegar ekki laus 21. ágúst en þá fer fram mikilvægur leikur á milli Íslands og Danmerkur í undankeppni HM kvenna. Alla jafna ættu landsliðin jafnframt að mega æfa á Laugardalsvelli daginn fyrir leik sem gerir erfiðara en ella að setja leik Stjörnunnar og Inter á miðvikudaginn.

Líklega leikið 20. ágúst á Laugardalsvelli

Sigurður Sveinn Þórðarson, sem viðstaddur var dráttinn í Nyon í Sviss í dag og tekur þátt í samningaviðræðum fyrir hönd Stjörnunnar ásamt Victori Inga Olsen, segir að líklegast sé þó að heimaleikur Stjörnumanna fari fram miðvikudaginn 20. ágúst. Inter vilji að leikurinn fari fram á miðvikudegi eða fimmtudegi, en ekki þriðjudaginn 19. ágúst eins og einnig hefur verið stungið upp á.

Vegna leikja í forkeppni Meistaradeildar Evrópu, sem fram fara 19. og 20. ágúst, þyrftu liðin að mætast að degi til mætist þau annan hvorn daginn, og myndi leikurinn sennilega hefjast kl. 16 eða 17.

Niðurstaða UEFA í málinu gæti hugsanlega legið fyrir síðar í dag, að sögn Sigurðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert