Zanetti: Stjarnan er með forskot

Stjarnan er búin að leika í þremur umferðum forkeppninnar og …
Stjarnan er búin að leika í þremur umferðum forkeppninnar og hefur ekki enn tapað. Ljósmynd/Adam Jastrzebowsk

Javier Zanetti varaforseti Inter Mílanó segir að liðið megi ekki við því að vanmeta Stjörnuna þó að Garðbæingar séu mun lægra skrifaðir en ítalska stórliðið. Liðin mætast í umspilinu um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar síðar í mánuðinum.

„Við ætlum okkur langt í þessari keppni. Við getum ekki vanmetið andstæðinginn því að á þessu stigi í Evrópukeppni er ekkert til sem heitir auðveldur leikur,“ sagði Zanetti eftir dráttinn. Hann vill meina að Stjarnan græði á því að hafa leikið í fyrri umferðum forkeppninnar.

„Andstæðingar okkar eru með forskot á okkur í undirbúningi sínum eftir að hafa spilað í þremur umferðum nú þegar. Við verðum að búa okkur undir að spila okkar besta leik. Þetta er fyrsta skrefið sem gefur okkur færi á að fara langt í Evrópu,“ sagði Zanetti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert