Dofri: „Fundum okkur ekki“

Dofri Snorrason.
Dofri Snorrason. mbl.is/Ómar

„Þetta var léleg frammistaða af okkar hálfu. Það verður að segjast alveg eins og er,“ sagði Dofri Snorrason, leikmaður Víkings, hreinskilinn í samtali við mbl.is eftir 4:1 tap gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli í dag.

Víkingur spilaði 4-4-2 með tígulmiðju fyrsta hálftíma leiksins en leikmennirnir virtust eiga í erfiðleikum með að aðlagast nýrri leikaðferð.

„Við fundum okkur ekki alveg. Ég veit ekki hvort taktíkin hafi verið ástæðan fyrir því. Það var lítill hreyfanleiki í liðinu og við héldum boltanum ekki vel. Það skilaði sér í þessum tveimur mörkum hjá þeim.“

Víkingur er sem fyrr í 4. sæti deildarinnar en þar sem Valur sigraði Þór 2:0 á Hlíðarenda í dag munar aðeins tveimur stigum á liðunum.

„Við verðum fljótir að rífa okkur upp úr þessu. Það eru tveir skemmtilegir leikir eftir af deildinni. Það verður gaman að taka á móti KR-ingunum og að fara til Keflavíkur í lokaumferðinni. Vonandi náum við í sem flest stig og löndum þessu Evrópusæti,“ sagði Dofri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert