Svona lið eru fljót að refsa

Frá leik Vals og Bröndby í kvöld.
Frá leik Vals og Bröndby í kvöld. mbl.is/Þórður

„Þeir refsa á meðan við gerum það ekki,“ sagði svekktur fyrirliði Vals, Haukur Páll Sigurðsson, við mbl.is eftir 4:1-tap Vals á heimavelli gegn Bröndby í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í kvöld.

Staðan var markalaus að loknum fyrri hálfleik en gestirnir frá Danmörku skoruðu þrjú mörk á fyrstu fimmtán mínútum seinni hálfleiks og gerðu þar með nánast út um einvígið.

„Munurinn á íslenskum liðum og topp atvinnumannaliðum í Skandinavíu er að þau eru fljót að refsa. Við fengum alveg færi í þessum leik til að skora fleiri mörk. 4:1 er of stórt að mínu mati því við áttum að nýta okkar færi en þeir nýttu sín færi vel,“ bætti Haukur Páll við.

„Við ætluðum að halda áfram eins og við lékum í fyrri hálfleik. Síðan fáum við mark á okkur strax,“ sagði Haukur en Bröndby skoraði fyrsta mark leiksins eftir tæplega tveggja mínútna leik í seinni hálfleik. 

„Ég vil ekki segja að við höfum gefist upp. Aðalmunurinn er að svona lið refsa og það er munurinn á liðunum. Við verðum að vera bjartsýnir og það er allt hægt í fótbolta. Eigum við ekki að vona að við fáum víti og rautt spjald á annarri mínútu, þá er allt opið,“ sagði fyrirliði Vals að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert