„Erfitt fyrir þá að gíra sig upp“

Heimir Guðjónsson
Heimir Guðjónsson Eggert Jóhannesson

Íslandsmeistarar FH töpuðu 1:0 fyrir Víkingi R. í 21. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu í dag. Heimir Guðjónsson, þjálfari FH-inga, var ósáttur við spilamennsku liðsins.

Það var lítið undir fyrir leik þessara liða í dag. FH var þegar búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn og Víkingar voru úr leik í baráttunni um Evrópusæti en það var færanýting FH-inga sem varð þeim að falli í dag.

Róbert Örn Óskarsson varði eins og berserkur í Víkinni, en Heimir ræddi við fjölmiðla um leikinn í dag.

„Við fengum nóg af færum en Robbi var var rosalega góður í markinu og við náðum ekki að nýta færin nægilega vel,“ sagði Heimir eftir leik.

„Það var mikið um færi en báðir markverðirnir voru mjög góðir. Það virkaði þannig á mig að þegar komið var í leikinn var erfitt fyrir strákana að gíra sig upp í þennan leik. Varnarlega vorum við ólíkir sjálfum okkur og slitnuðum við of mikið í sundur,“ sagði hann enn fremur.

FH mætir ÍBV í Kaplakrika í síðustu umferð deildarinnar en þar fer bikarinn á loft.

„Við viljum klára tímabilið með stæl og fáum bikarinn afhentan á laugardaginn. Ég get ekki ímyndað mér að það sé gaman fyrir strákana að taka á móti bikarnum og tapa,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert