Pabbinn veðjar alltaf á Mandzukic

Mario Mandzukic og Kári Árnason munu væntanlega eigast við á …
Mario Mandzukic og Kári Árnason munu væntanlega eigast við á morgun. mbl.is/Ómar

Markahrókurinn Mario Mandzukic verður án efa í fremstu víglínu hjá Króatíu þegar liðið mætir Íslandi á morgun í undankeppni HM karla í knattspyrnu.

Mandzukic hefur þegar skorað fjögur mörk í undankeppninni en hann gerði þrennu gegn Kósóvó og eitt mark gegn Finnlandi í síðasta mánuði. Hann skoraði 10 mörk í 27 deildarleikjum með Juventus á síðustu leiktíð og hefur skorað tvö í vetur, en raðaði áður inn mörkum fyrir Atlético Madrid, Bayern München og Wolfsburg.

Pabbi Mandzukic hefur haft það sem reglu frá árinu 2012, fyrir hvern leik, að leggja alltaf 50 króatískar kúnur (rúmar 800 íslenskar krónur) undir í veðmáli um að Mandzukic skori fyrsta mark leiksins. Ekki fylgir sögunni hvort pabbinn hefur hagnast á þessu en hann kom í það minnsta út í gróða síðast þegar Króatía og Ísland mættust, því þá skoraði Mandzukic fyrra mark Króata í 2:0-sigri.

Mandzukic þykir afar afslappaður náungi utan vallar. Hann var ekki hrifinn af bóklegu námi og valdi sér skóla sem næst sínu heimili. Hann lauk iðnnámi þar sem hann sérhæfði sig í að flísaleggja, en hefur síðan einbeitt sér að því að leggja boltann í markið hjá andstæðingum sínum á fótboltavellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert