Bæði lið áttu frábæra kafla

Bjarni Ólafur Eiríksson og Halldór Orri Björnsson í baráttunni á …
Bjarni Ólafur Eiríksson og Halldór Orri Björnsson í baráttunni á Valsvellinum í kvöld. mbl.is/Golli

„Ég held að við verðum að segja að þessi úrslit hafi verið sanngjörn,“ sagði Sigurbjörn Hreiðarsson, annar af þjálfum Vals, við mbl.is eftir jafntefli gegn FH-ingum í lokaleik 3. umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Valsvellinum í kvöld.

„Við vorum betri í fyrri hálfleiknum en FH-ingar komu sterkir inn í seinni hálfleikinn og voru þá betri en við. Við bökkuðum ósjálfrátt aftar á völlinn í seinni hálfleik og við vissum að við yrðum að standast ákveðið áhlaup frá þeim.

Við reyndum eftir fremsta megni að halda fengnum hlut en FH-ingarnir sóttu grimmt á okkur og fengu svo þessa vítaspyrnu sem mér fannst ansi hreint ódýr. Boltinn fór vissulega í höndina á Rasmus en það var verið skjóta boltanum frá markinu þegar boltinn fór í höndina á honum.

Úr því sem komið er þá tökum við þessu stigi og höldum ótrauðir áfram. Mér fannst þetta hörkuleikur tveggja afar góðra liða. Bæði lið áttu frábæra kafla í leiknum,“ sagði Sigurbjörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert