Línuvörðurinn var ógnandi við mig

Gregg Oliver Ryder.
Gregg Oliver Ryder. Ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

„Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur, við vorum mjög óheppnir í gegnum leikinn. Það voru menn að meiðast og mér fannst dómarinn dæma á móti okkur,“ sagði Gregg Ryder, þjálfari Þróttar, eftir 2:1 sigur á Þór á heimavelli í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í dag. 

Emil Atlason meiddist illa í leiknum og óttast Gregg að hann hafi slitið krossband. 

„Það gæti verið að krossbandið hjá honum sé farið, hann fótbrotnaði á síðasta ári og nú þetta. Hann verður frá í marga mánuði ef krossbandið er slitið, en það kemur í ljós á næstu dögum.“

Gregg var ekki sáttur við dómgæsluna, hvorki í leiknum né á tímabilinu í heild sinni. 

„Mér fannst við eiga að fá klárt víti og dómarinn rak mig út af eftir að línuvörðurinn hafði verið ógnandi við mig. Svona ákvarðanir hjá dómurum eru einfaldlega rangar. Við fengum rautt spjald sem var aldrei rautt spjald í fyrsta leiknum, við fengum víti á okkur á móti ÍR. Við erum að fá slaka dómara á hvern einasta leik og það þarf að skoða þetta. Dómararnir verða að vera betri en þetta í þessari deild.“

Hlynur Hauksson skoraði sigurmarkið með fyrirgjöf sem hafnaði í bláhorninu. 

„Hann ætlaði að setja boltann nákvæmlega þarna, hann gerir þetta á æfingu á hverjum degi,“ sagði Englendingurinn léttur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert