Þriðji markvörður KR hetjan í vítakeppni

KR fagnaði sigri í vitakeppni gegn ÍR.
KR fagnaði sigri í vitakeppni gegn ÍR. mbl.is/Alfons

KR er komið áfram í átta liða úrslit bikarkeppni karla í knattspyrnu, Borgunarbikarsins, eftir sigur á ÍR í vítaspyrnukeppni í maraþonleik í Breiðholtinu í kvöld. Þriðji markvörður KR-inga, hinn 19 ára gamli Jakob Eggertsson, reyndist hetjan.

Ekkert var skorað í fyrri hálfleiknum, en KR-ingar komust næst því þegar Óskar Örn Hauksson átti skot í þverslá ÍR-inga af stuttu færi. Vesturbæingar komust hins vegar yfir strax í upphafi seinni hálfleiks þegar Tobias Thomsen skoraði úr teignum eftir fyrirgjöf Kennie Chopart. Staðan 1:0 fyrir KR.

Um miðjan síðari hálfleikinn jöfnuðu hins vegar ÍR-ingar metin. Jón Gísli Ström fékk þá stungusendingu innfyrir vörn KR, brunaði inn í teiginn og lagði boltann framhjá hinum unga Jakobi Eggertssyni sem kom í mark KR í hálfleik. Staðan 1:1 og þannig var hún eftir venjulegan leiktíma svo grípa þurfti til framlengingar.

Baráttan var mikil í framlengingunni þó þreytan hafi verið farin að segja til sín. Ekkert var skorað og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.

Bæði lið skoruðu úr fyrstu fjórum spyrnum sínum, en markverðirnir Steinar Örn Gunnarsson og Jakob Eggertsson vörðu fimmtu spyrnurnar. Þegar komið var fram í áttundu umferð vítakeppninnar var það hins vegar hinn ungi Jakob sem tryggði KR sigurinn þegar hann varði spyrnu Óskars Jónssonar í stöngina. KR vann því vítakeppnina 7:6 og leikinn 8:7.

Fylgst var með gangi mála í leiknum og vítaspyrnukeppninni í beinni textalýsingu á mbl.is sem sjá má hér að neðan.

ÍR 7:8 KR opna loka
120. mín. Viktor Örn Guðmundsson (ÍR) skorar úr víti 2:2 - Sendi Jakob í rangt horn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert