Pedersen aftur til Vals

Patrick Pedersen í leik með Val gegn FH.
Patrick Pedersen í leik með Val gegn FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Norska blaðið Stavanger Aftenblad greinir frá því að norska úrvalsdeildarliðið Viking sé búið að selja danska framherjann Patrick Pedersen til Vals og mun hann ganga í raðir félagsins í júlí þegar félagaskiptaglugginn opnast um miðjan mánuðinn.

Pedersen lék með Valsmönnum frá 2013 til 2015 og átti svo sannarlega góðu gengi að fagna með liðinu. Hann lék 42 deildarleiki með Val og skoraði í þeim 24 mörk. Pedersen varð markakóngur Pepsi-deildarinnar árið 2015 með 13 mörk, ásamt því að skora 4 mörk í bikarkeppninni þar sem hann fagnaði sigri með Val, en um haustið gekk hann til liðs við Viking.

Pedersen hefur fengið fá tækifæri með Viking á þessari leiktíð. Hann hefur komið við sögu í fimm leikjum af 12 leikjum liðsins í deildinni og í öll skiptin hefur hann komið inná sem varamaður. Daninn hefur samtals spilað í 65 mínútur með liðinu í deildinni en Viking situr á botninum með aðeins 8 stig eftir 12 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert