Er að læra mikið á því að vera hérna

Rashid Yussuff í leik með ÍA.
Rashid Yussuff í leik með ÍA. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta eru svekkjandi úrslit. Við gáfum allt í þennan leik og við vorum óheppnir með sumar ákvarðanir dómaranna. Mér fannst við eiga skilið að vinna leikinn, en við förum með jákvætt hugarfar í næsta leik,“ sagði Rashid Yussuf, leikmaður ÍA, eftir 1:1 jafntefli við Víking R. í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Yussuf var besti maður vallarins. 

Einhverjir Skagamenn vildu fá aukaspyrnu í aðdragana jöfnunarmarks Víkinga í síðari hálfleik. 

„Ég er ekki viss, það er erfitt að vera dómari þessa daganna. Ég hefði haldið að þetta væri brot, en dómarinn blés ekki í flautuna. Við verðum að halda áfram ef hann dæmir ekki en þeir skora upp úr þessu atviki. Við getum ekki komið með afsakanir í sambandi við dómarann. Þetta er eitthvað sem við verðum að taka á æfingasvæðinu í næstu viku.“

„Það kemur með reynslunni að vinna leiki og ná í úrslit þegar þú ert kominn yfir. Við verðum að taka það jákvæða úr þessum leik, úrslitin eru ekki svo slæm og við tökum stiginu.“

Yussuff er uppalinn á Englandi og spilaði hann yfir 100 leiki með AFC Wimbledon í neðri deildunum á Englandi. Hann hefur bæði spilað sem miðjumaður og bakvörður á Íslandi. 

„Ég er að læra mikið á því að vera hérna. Ég hef aldrei spilað í þessari deild áður og þetta er spennandi deild. Ég er ánægður með að fá að spila og mér er sama í hvaða stöðu það er. Ég vil hjálpa liðinu og þjálfurunum. Vonandi náum við að komast ofar í töflunni.“

„Síðan ég var í unglingastarfi Charlton hef ég spilað bæði sem bakvörður og miðjumaður. Það getur komið sér vel að geta spilað margar stöður. Þá lærir maður á leikinn og það hjálpar,“ sagði hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert