„Varnarleikurinn var góður hjá okkur“

KA-maðurinn Aleksandar Trninic og Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, í …
KA-maðurinn Aleksandar Trninic og Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, í kröppum dansi á Akureyri í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Túfa, þjálfari KA í Pepsi-deild karla, var nokkuð sáttur með eitt stig eftir leik KA og FH í dag. Leikurinn var hægur og lokaður enda fór svo að liðin skildu jöfn, 0:0.

„Ég er ánægður með strákana. Öll undirbúningsvinna fyrir leikinn var tengd varnarleiknum og við héldum hreinu. Það má ekki gleyma því að við vorum að spila við annað af tveimur bestu liðunum og þeir fengu engin færi gegn okkur. Auðvitað vildum við fá öll stigin en sóknarleikurinn var ekki nógu beittur.“

Hvernig líst þér svo á næsta leik, gegn Fjölni í Grafarvogi á miðvikudaginn? Það er stórleikur.

Það eru allir leikir stórir í þessari deild. Það hefur sýnt sig í sumar að  þú getur ekki valið þér leiki til að leggja þig fram í. Ef þú ert ekki tilbúinn þá taparðu, sama hver mótherjinn er. Að sama skapi þá geturðu unnið hvaða lið sem er ef þú mætir með rétt hugarfar.“

Hvað fannst þér um frammistöðu nýja leikmannsins, Vedran Turkalj, í miðverðinum?

„Mér fannst hann bara fínn. Hann spilaði af stöðugleika og öryggi, reyndar eins og allir í öftustu línunni. Það var ró yfir honum og það gengur yfirleitt vel þegar allir hjálpast að. Allir í liðinu voru að vinna fyrir hvern annan og í heildina var varnarleikurinn góður hjá okkur í dag. Það var aðaláherslan í dag. Við vorum búnir að fá tólf mörk á okkur í síðustu fjórum leikjum og fengum erfitt próf í dag, gegn frábæru liði. Við stóðumst það próf en því miður þá náðum við ekki að halda áfram að skora eins og í síðustu leikjum“ sagði Túfa að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert